Erlent

Fuglaflensa breiðist út í Síberíu

Fuglaflensa heldur áfram að breiðast út í Síberíu í Rússlandi. Samkvæmt Interfax-fréttastofunni eru sýkt svæði í Rússlandi nú alls 14. 35 þúsund alifuglum hefur verið slátrað í héraðinu Novosibirsk, þar sem veiran greindist síðast, til þess að reyna að hefta útbreiðslu hennar. Alls hafa ríflega átta þúsund villtir fuglar fundist dauðir í Síberíu og eru yfirvöld þar mjög á varðbergi. Þá hefur fuglaflensu í fyrsta skipti orðið vart í Mongólíu, sem á landamæri að Rússlandi, en þar hafa 80 farfuglar fundist dauðir. Yfirvöld í Kasakstan hafa auk þess staðfest að H5N1-stofn veirunnar, sem borist getur úr fuglum í menn, hafi greinst í fuglum í landinu en enginn maður hefur verið greindur með smit. Líklegt er talið að veiran berist á milli svæða með farfuglum og telja rússnesk heilbrigðisyfirvöld hugsanlegt að þeir beri hana alla leið til Bandaríkjanna. Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld óttast að veiran kunni að stökkbreytast og fari að berast milli manna og verði að alheimsfaraldri á við spánsku veikina sem varð 40 milljónum að bana við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×