Erlent

Óttast um afdrif 60 hermanna

Nepölsk stjórnvöld hafa vaxandi áhyggjur af afdrifum sextíu hermanna sem ekkert hefur spurst til í nokkurn tíma. Lík fjörutíu félaga þeirra fundust í vikunni en þeir féllu í átökum við uppreisnarmenn maóista. Allt benti til að hermönnunum fjörutíu hefði verið stillt upp í röð og þeir teknir af lífi. Útlimirnir höfðu verið skornir af sumum þeirra. Allar líkur eru á að uppreisnarmenn hafi staðið fyrir ódæðunum. Ian Martin, einn talsmanna Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, skoraði á uppreisnarmenn í gær að meðhöndla fanga sína í samræmi við alþjóðalög. 26 uppreisnarmenn hafa fallið undanfarna daga. Átök hafa haldið áfram í fjallahéruðum í vesturhluta landsins en þau hafa verið sterkustu vígi uppreisnarmannanna. Í gær kvaðst herinn hafa náð þar undirtökunum en viðurkenndi um leið að sextíu hermanna væri saknað. Afar róstusamt hefur verið í Nepal síðustu árin og hafa yfir 11.000 manns fallið í átökum stjórnarhersins og maóískra uppreisnarmanna sem vilja steypa Gyanendra konungi af stóli. Hann tók sér alræðisvald í febrúar, lét handtaka fjölda stjórnarandstæðinga og afnam ýmis borgaraleg réttindi. Þær ráðstafanir urðu síst til að koma á friði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×