Innlent

Verðbólga mælist nú 4,8 prósent

Í kjarasamningum sem gerðir voru í fyrra er ákvæði sem segir að endurskoða megi samninga eða segja þeim upp fari verðbólgan yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólgumarkmið er 2,5 prósent en samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands mælist verðbólga síðustu tólf mánaða nú 4,8 prósent. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að nefnd skipuð tveimur fulltrúum fá SA og tveimur frá Alþýðusambandi Íslands muni reyna að komast að samkomulagi um breytingar á kjarasamningum í ljósi verðbólguákvæðisins. Ef samkomulag næst ekki má segja samningum upp. Ákvæðið tekur gildi í nóvember. "Nú er verðbólgan orðin það mikil að ljóst er að það mun reyna á þessar forsendur. Það er ekki umdeilt að þetta sé marktækt frávik frá verðbólgumarkmiðum Seðlabankans," segir Hannes. Hann segir ómögulegt að segja til um hvað muni gerast. "Það stefnir í einhverjar niðurstöður, annað hvort breytingar á samningum eða uppsögn þeirra," segir hann. Ásgeir Jónsson hagfræðingur segir að ef farið verði fram á launahækkun í nýjum kjarasamningum muni verðbólgan hækka enn meir. "Það er ekki víst að hækkun kauptaxta á þessum tímapunkti muni skila auknum kaupmætti vegna þess að frekari hækkun á launakostnaði mun ýta verðbólgu upp," segir Ásgeir. Hannes bendir á að samningarnir sem gerðir voru í ársbyrjun 2004 verði þá til tveggja ára en ekki fjögurra. "Langtímakjarasamningum er ætlað að skapa festu og aukna vissu fyrir atvinnureksturinn til að geta séð lengra fram í tímann og gert raunhæfari áætlanir en ella," segir Hannes. "Það er í raun og veru mjög mikilvægt verkefni að reyna að halda sem mestum stöðugleika og valda sem minnstri óvissu og titringi í kringum þessi mál. Kaupmáttur í landinu er í raun og veru of hár, sem kemur fram í þessum mikla viðskiptahalla og miklum innflutningi alls kyns neysluvarnings. Það getur ekki verið þjóðhagslega mikilvægt verkefni að auka kaupmátt. Það er ef til vill verkefni að varðveita hann eins mikið og kostur er," segir Hannes.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×