Erlent

Palestínumaður skotinn til bana

Palestínumaður var skotinn til bana á landamærum Gasastrandarinnar og Egyptalands í dag, sama dag og Ísraelar drógu sig algerlega út af Gasaströndinni. Reuters-fréttastofan hefur eftir vitnum á staðnum að fjölmargir Palestínumenn og Egyptar hafi streymt í báðar áttir yfir landamærin til þess að fagna brotthvarfi Ísraelshers þaðan, en egypskum landamæravörðum var falið að gæta þess að vopnum yrði ekki smyglað frá Egyptalandi til Gasastrandarinnar eftir brottför Ísraelshers. Vitnin segja að egypsku verðirnir hafi reynt að dreifa fjöldanum með því að skjóta á hann og þá hafi einn látist. Talsmaður forseta Egyptalands neitar því hins vegar alfarið að þarlendir landmæraverðir hafi drepið nokkurn mann. Mikill gleði hefur verið á Gasaströndinni í dag eftir að ísraelski herinn hvarf á brott í morgunsárið, en þar með lauk 38 ára hersetu Ísraelsmanna þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×