Innlent

Vill stemma stigu við svindli

Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri á Akranesi, boðar í dag til annars fundar um málefni erlendra starfsmanna í sveitarfélaginu. Hann segir í viðtali við Skessuhornið að enginn vafi leiki á því í hans huga að vinnuveitendur hafi farið á mis við leikreglur í þessum efnum í sveitarfélaginu.

Fundinn sitja auk bæjarstjóra Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins þar í bæ, Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður og Stefán Skjaldarson, skattstjóri Vesturlandsumdæmis. "Við erum bara að kortleggja ástandið og greina hver öðrum frá því hvað eru margir erlendir starfsmenn sem hér vinna og svo framvegis," segir Vilhjálmur Birgisson sem fagnar þessu frumkvæði bæjarstjórans.

Á þessu ári hefur verkalýðsfélagið haft afskipti af þremur fyrirtækjum í bænum sem höfðu erlenda starfsmenn í vinnu hjá sér. Í tveimur fyrstu tilfellunum voru mennirnir fengnir frá starfsmannaleigu en voru í framhaldinu ráðnir til viðkomandi fyrirtækis samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Enn er verið að rannsaka þriðja fyrirtækið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×