Innlent

Vill eftirlitsmyndavélar á Laugaveginn

Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Borgarstjórinn segir hið góða sem hafi verið að gerast í miðbænum oft gleymast.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Borgarstjórinn segir hið góða sem hafi verið að gerast í miðbænum oft gleymast.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segist vilja eftirlitsmyndavélar á Laugaveginn. Hún ræddi þann möguleika á fundi sínum með lögreglustjóranum í Reykjavík í gær. Fréttablaðið hefur að undanförnu greint frá slæmu ástandi á Laugavegi, einkum um helgar.

Viðmælendur blaðsins, sem búa við Laugaveg eða eru með rekstur við hann, hafa lýst ástandinu sem uggvænlegu. Einn þeirra varð nýlega fyrir árás fíkniefnaneytanda um hábjartan dag. Árásarmaðurinn sparkaði í hann með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði. Íbúarnir segjast hafa þurft að tína upp "sprautur og annan ófögnuð" á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Næturhrafnarnir geri þarfir sínar í lóðir og veggjakrotið sé yfirþyrmandi. Sóðaskapurinn sé yfirgengilegur. Þá kvarta íbúarnir undan tilteknum börum á svæðinu og fullyrða að þar fari fram fíkniefnasala með meiru. Þeir segjast hafa rætt við borgarfulltrúa um þennan vanda en án árangurs.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:laugavegur Íbúar og verslunareigendur á þessu svæði hafa kvartað í viðtölum við Fréttablaðið vegna óláta um helgar og sóðaskapar sem fylgt hefur. Borgarstjóri vill eftirlitsmyndavélar.

"Mér finnst alveg koma til greina að setja upp eftirlitsmyndavélar á Laugaveginum eins og við gerðum niðri í Kvos," segir Steinunn Valdís. "Við höfðum forgöngu um það gagnvart lögregluyfirvöldum og myndavélarnar hafa haft veruleg áhrif. Mér finnst því alveg koma til greina að koma upp svona myndavélum á Laugavegi í samráði við lögregluna. Þær eru klárlega fyrirbyggjandi og myndu örugglega gagnast sem slíkar á þessu svæði."

Steinunn Valdís segir að umfjöllun um Laugaveginn hafi verið á alltof neikvæðum nótum. Hún kveðst viðurkenna að það hafi komið upp tilfelli um helgar sem tengd séu nokkrum stöðum. "En staðreyndin er sú að í fyrsta skipti í ár er biðlisti eftir verslunarhúsnæði þar," bætir hún við og kveðst sjálf hafa verið á Laugaveginum um helgina. "Það þarf ekki annað en að fara þarna niður eftir til að sjá hvað verslun og þjónusta hafa blómstrað. Ég fann það þegar ég ræddi við verslunareigendur að menn voru almennt mjög ánægðir. Þeim fannst að umræðan og stemningin almennt í kringum miðborgina og Laugaveginn hefði breyst mjög nú á undanförnum vikum, enda margt búið að gerast og ýmislegt er í farvatninu. En þegar svona kemur upp um helgar þá setur það vissulega ljótan blett á svæðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×