Innlent

400 milljónir í framboðið

Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Árlegur kostnaður er ekki undir 100 milljónum á ári ef Ísland nær kjöri í öryggisráðið.
Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Árlegur kostnaður er ekki undir 100 milljónum á ári ef Ísland nær kjöri í öryggisráðið.

Kostnaður við framboð Íslendinga til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er áætlaður um 200 milljónir króna frá árinu 2001. Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, kemur fram að undirbúningi og áætlunum vegna framboðsins hafi verið sinnt samhliða öðrum málum og ekki leitt til fjölgunar í utanríkisráðuneytinu.

Kostnaðurinn sé fyrst og fremst til kominn vegna meiri umsvifa og fjölgunar í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Í svarinu kemur fram að gætt verði hófs í framhaldinu. "Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna framboðsins næstu þrjú ár, eða þar til kosið verður um sætið í ráðinu haustið 2008, verði rúmlega 200 milljónir króna. Það felur í sér lækkun frá fyrri áætlun vegna þessara þriggja ára um 170 milljónir króna," segir í svari utanríkisráðherra.

Nái Ísland kjöri hefur verið áætlað að kostnaður vegna setunnar í öryggisráðinu 2009 og 2010 gæti numið um 100 milljónum króna ári. Ekki er talið útilokað að atburðir í alþjóðamálum á kjörtímabili Íslands leiði til aukinna umsvifa í störfum ráðsins og því sé erfitt að áætla kostnað nákvæmlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×