Innlent

Djúpt borað eftir orku

Tilraunahola djúpborunarverkefnisins. Til að átta sig betur á vegalengdinni sem bora á eftir heitri vatnsgufu á yfirþrýstingi er til hliðar sýnd sama vegalengd á götum Reykjavíkur. Eftir að þriðja áfanga í djúpboruninni er náð árið 2007 og komið er niður á 5 kílómetra dýpi taka við vinnslutilraunir sem standa eiga frá 2008 til 2009.
Tilraunahola djúpborunarverkefnisins. Til að átta sig betur á vegalengdinni sem bora á eftir heitri vatnsgufu á yfirþrýstingi er til hliðar sýnd sama vegalengd á götum Reykjavíkur. Eftir að þriðja áfanga í djúpboruninni er náð árið 2007 og komið er niður á 5 kílómetra dýpi taka við vinnslutilraunir sem standa eiga frá 2008 til 2009.

Íslenska djúpborunar­verkefnið er komið vel á veg en í haust var því tryggð fjármögnun. Markmiðið með verkefninu er að finna út hvort með breyttri vinnsluaðferð megi ná meiri orku úr háhitasvæðum og auka með því hagkvæmi jarðhitavinnslu. Nú þegar telja orkufyrirtæki jarðorkuvirkjanir vænlegri kost en vatnsaflsvirkjanir.

Nú hefur fjármögnun íslenska djúpborunarverkefnisins verið tryggð og er næsta skref að ákveða í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja hvar eigi að bora fyrstu holuna næsta haust. Valið stendur um tvær holur á Reykjanesi og segir Júlíus Jón Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja að gert verði upp á milli þeirra á næstu dögum. "Þetta eru holur 16 og 17 sem um er að ræða," segir hann. Ekki stendur þó til að bora fyrr en næsta haust, en þá verður farið niður á fjögurra kílómetra dýpi og ári síðar á svo að bæta við kílómetra. Hefðbundnar vinnsluholur eru tveggja til þriggja kílómetra djúpar. Til þess að setja dýpt holunnar í samhengi má benda á að fjórir kílómetrar eru frá JL-húsinu við vesturenda Hringbrautar í Reykjavík að Kringlunni ef ekin er beinasta leið austur Hringbrautina.

Samstarf veitufyrirtækja
Verkefnið er unnið í samstarfi Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykja­víkur, Hitaveitu Suðurnesja og Orkustofnunar. Ísland er stærsta landsvæðið á Atlanshafshryggnum sem stendur up úr sjó og því er það sagt tilvalinn staður til djúpborunar. Hér á landi er hitauppstreymi mikið og jarðlög lek. Þegar komið er niður á fjögurra til fimm kílómetra dýpi er jarðhitinn orðinn um 400 til 600 gráður og standa vonir til að með því megi fá tífalt meiri orku en úr hefðbundnum holum. Tæknin á svo að geta nýst á öllum jarðhitasvæðum. Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, stýrir íslenska djúpborunarverkefninu, en að því kemur annars fjöldi vísindamanna um heim allan. "Hugmyndin er að dýpka holu hjá Hitaveitu Suðurnesja," segir hann um fyrsta áfanga djúpborunarverkefnisins. "Undirbúningur að þessu er í fullum gangi og horft til næsta hausts." Panta bráðum efniBorun af þessum toga kallar á töluverðan undirbúning og skýrir það hversu langt er horft fram í tímann með næstu skref. "Það tekur til dæmis nokkra mánuði að fá afgreitt efni til borunarinnar. Það þarf að panta og framleiða með fyrirvara efni í fóðringar og fleira." Guðmundur bætir þó við að í sjálfu sér væri hægt að ganga í að panta efni þó svo að ekki væri búið að negla nákvæmlega niður í hvaða hola yrði dýpkuð. "Það getur farið í hvaða holu sem er, alls staðar er notað sama efnið." Guðmundur áréttar að verkefnið sé skipulagt langt fram í tímann og að margt geti gerst sem erfitt kunni að vera að spá um. Gangi allt samkvæmt áætlun verða á næsta ári hins vegar steyptar fóðringar í holuna sem fyrir valinu verður niður á 3,1 kílómetra dýpi og holan sjálf dýpkuð í fjóra kílómetra. Haustið 2007 á svo að dýpka holuna niður í fimm kílómetra með kjarnbor. Í lokaáfanga verkefnisins, árin 2008 og 2009 hefjast svo vinnslutilraunir. Meðan á þeim stendur er fyrirhugað að nota sérhannað rör, um fjögurra kílómetra langt til að setja í holuna. Vökvinn sem fæst úr holunni og til stendur að vinna er yfirhituð háþrýstigufa. Djúpborunarverkefnið hefur verið í gangi í nokkurn tíma, en forathugun á því hófst árið 2000 og lauk svo með nokkuð ítarlegri skýrslu árið 2003. Hengillinn á við KárahnjúkaGuðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segist fyrst og fremst líta á djúpborunarverkefnið sem spennandi rannsókn, en ekkert sé enn hægt að gefa sér um hvað út úr því öllu kemur. "Fyrst þarf nú að komast að því hvort þarna er eitthvað að hafa. En ef maður er bara að velta fyrir sér jarðhita virkjanlegum yfir í rafmagn, þá er hann hugsanlega talinn meiri en vatnsafl á landinu," segir hann og bendir á að bæði Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja virki jarð­hita til stóriðju. "Ef horft er á Hengilssvæðið hjá Orkuveitunni, sem við erum undanfarin 15 ár búin að vera að virkja og erum með mikinn gang í, þá verður það árið 2011, ef allt gengur eftir, orðið tæplega 500 megavött. Þá verður það farið að slaga upp í Kárahnjúkavirkjun sem er einhvers staðar á milli 500 og 600 megawött." Svo er hugsanlega hægt að ná enn meiru út úr háhitasvæðum landsins og enn hagkvæmari virkjunum með því að fara út í djúpboranir. "En það er nú bara rannsóknarverkefni ennþá og þýðir ekki að setja það í bankann," áréttar Guðmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×