Innlent

Krefja stjórnvöld um bætt kjör

Öryrkjar og eldri borgarar fyrir utan Alþingi. Fjölmenni var á Austurvelli í gær og mörg kröfuspjöld á lofti.
Öryrkjar og eldri borgarar fyrir utan Alþingi. Fjölmenni var á Austurvelli í gær og mörg kröfuspjöld á lofti.

Um hundrað manns lögðu af stað frá Hallgrímskirkju klukkan hálf fimm í gær með kröfuspjöld á lofti og í takt við undirleik Skólahljómsveitar Kópavogs. Fljótlega flykktust mun fleiri í kröfugönguna, sem lauk á Austur­velli. Áætla má að rúmlega þúsund manns hafi verið þar um klukkan fimm.

Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands efndu þar til fundar um kjaramál. Fyrst var þó staldrað við fyrir utan Alþingishúsið og þingmönnum og ráðherrum fengnar jólagjafir og orð í eyra. Ólafur Ólafsson, formaður Landssambands eldri borgara, afhenti þá forseta Alþingis undirskriftalista með áskorun til stjórnvalda. Á fundinum hélt Ólafur ávarp ásamt Margréti Margeirsdóttur, formanni Félags eldri borgara, og Sigursteini Mássyni, formanni Öryrkjabandalagsins.

Steindór Andersen kvað rímur að ræðuhöldum loknum og Aðalheiður Sigurjónsdóttir flutti leikatriði. Þá tók við tónleikahald og léku Gísli Helgason, Brynhildur Ólafsdóttir og hljómsveitin Sér á báti fyrir fundargesti, sem fengu að vökna þó nokkuð en rigningin lét á sér kræla í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×