Innlent

Stjórnendur sagðir leggja fólk í einelti

Landmælingar á Hornströndum.  Átta starfsmenn hafa sagt upp störfum sínum hjá Landmælingum Íslands á þessu ári en 35 unnu hjá stofnuninni. Hér eru starfsmenn við landmælingar í fyrrasumar, þyrlan TF-SIF í baksýn.
Landmælingar á Hornströndum. Átta starfsmenn hafa sagt upp störfum sínum hjá Landmælingum Íslands á þessu ári en 35 unnu hjá stofnuninni. Hér eru starfsmenn við landmælingar í fyrrasumar, þyrlan TF-SIF í baksýn.

Niðurstöður úttektar tveggja sálfræðinga á samskiptum yfirmanna og undirmanna Landmælinga Íslands eru áfellisdómur yfir stjórnendunum, samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið hefur aflað sér.

Hluti starfsmanna stofnunarinnar segist hafa mátt þola einelti af hálfu yfirmanna. Starfsmenn hafa verið mjög óánægðir með framkomu stjórnenda síðustu misserin. Í vor var tekið upp nýtt skipurit stofnunarinnar og sviðum fækkað úr fjórum í tvö. Við það fækkaði sviðsstjórum en fimm öðrum millistjórnendum var bætt við í staðinn.

Átta starfsmenn hafa sagt upp störfum sínum hjá Landmælingum Íslands á þessu ári en 35 störfuðu hjá stofnuninni. Þessi starfsmannaflótti átti síðan sinn þátt í því að stéttarfélög starfsfólks Landmælinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga og Útgarður, gengust fyrir því að fengnir voru tveir viðurkenndir sálfræðingar til að gera úttekt á samskiptum stjórnenda og starfsmanna. Náði úttektin bæði til þeirra starfsmanna sem voru hættir og hinna sem enn voru að störfum.

Niðurstaðan var svo kynnt á tveimur fundum nú nýverið með núverandi og fyrrverandi starfsmönnum. Samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið hefur aflað sér er skýrsla sálfræðinganna svört. Í henni bera sumir starfsmenn að þeir hafi orðið fyrir einelti yfirmanna. Stéttarfélögin grundvölluðu beiðni sína um úttekt sálfræðinganna meðal annars á reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en í þeim segir að stéttarfélag skuli sjá til þess að vinnuvernd sé til staðar á vinnustað.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:Magnús Guðmundsson Forstjóri Landmælinga Íslands ætlar ekki að tjá sig um málið og segist ekki hafa séð niðurstöðu skýrslunnar.

Stéttarfélögin hafa sent niðurstöður úttektarinnar til Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfis­ráðherra en Landmælingar heyra undir ráðuneytið. Er þeim óskum beint til ráðherrans að hún láti kanna þátt viðkomandi yfirmanna í þeirri stöðu sem upp hafi komið hjá Landmælingum. Stéttarfélögin ætla að óska viðbragða ráðherra innan tveggja vikna frá því að niðurstöður bárust henni í hendur.

"Ég ætla ekki að tjá mig um málið," var það eina sem Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga, hafði að segja við Fréttablaðið þegar haft var samband við hann í Stokkhólmi þar sem hann er nú staddur. Spurður um hvort hann hefði séð niðurstöður skýrslu sálfræðinganna kvað hann svo ekki vera. Sér hefði ekki verið afhent hún. Ekki náðist í Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra, sem er í Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×