Innlent

Hagnaður ríkissjóðs alls 91 milljarður

Sala Símans.  Einkavæðingarnefnd kynnir sölu Símans. Salan skilaði ríkissjóði 59 milljarða króna tekjum á þessu ári.
Sala Símans. Einkavæðingarnefnd kynnir sölu Símans. Salan skilaði ríkissjóði 59 milljarða króna tekjum á þessu ári.

Ríkissjóður skilar óvenjulegri rekstrarniðurstöðu árið 2005 að því leytinu til að tekjujöfnuðurinn á þessu ári nemur 91 milljarði króna. Ríkissjóður skilar með öðrum orðum hagnaði sem þessu nemur og hefur svo mikill hagnaður á rekstri ríkissjóðs ekki sést hér á landi og mun varla sjást aftur.

Ástæðan er einkum hagnaður vegna sölu ríkisins á Landssímanum en tekjufærður söluhagnaður Landssímans nemur 57,5 milljörðum króna. Einnig hafa aukin umsvif í efnahagslífinu og sú aukna neysla sem hefur einkennt árið áhrif á afkomu ríkissjóðs. Tekjur ríkissjóðs, sem má rekja til einkaneysluútgjalda heimilanna, hafa því aukist verulega frá því sem búist var við, til dæmis tekjur af virðisaukaskatti. Þetta kemur fram þegar skoðuð eru fjárlög og fjáraukalagafrumvarpið árið 2005.

Skatttekjur ríkissjóðs eru samtals 318 milljarðar króna á þessu ári. Virðisaukaskattur og aðrir skattar á vörur og þjónustu skila mestu, 160 milljörðum króna. Fjármagnstekjuskattur skilar meiri tekjum en fjárlög gerðu ráð fyrir, sem nemur um 10,5 milljörðum. Skattar á tekjur fyrirtækja og einstaklinga eru líka stór liður. Þeir nema 98,5 milljörðum króna.

Vegna aukinna umsvifa í efnahagslífinu er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skili ríkissjóði 1,3 milljörðum króna meiri tekjum en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Sala eigna skilar ríkissjóði 59 milljörðum króna. Tekjur ríkis­sjóðs nema því samtals 408,5 milljörðum króna. Gjöld ríkissjóðs nema 317 milljörðum, sem er 91 milljarði meira en tekjurnar sem eru samtals 408,5 milljarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×