Innlent

Gera ekki samninga í Eystrasaltsríkjum

Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar segir að starfsfólk í Eystrasaltslöndunum verði aðstoðað við að ná kjarasamningum við íslenska vinnuveitendur.
Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar segir að starfsfólk í Eystrasaltslöndunum verði aðstoðað við að ná kjarasamningum við íslenska vinnuveitendur.

Rúmlega 360 starfsmenn af þeim tæplega 2.000 starfsmönnum hjá íslensku fyrirtækjunum í Eystrasaltsríkjunum eru í stéttarfélögum. Langflestir þeirra starfa hjá matvælafyrirtækjum, 346 talsins. Nánast óþekkt er að starfsmenn hjá lyfjafyrirtækjum, textílfyrirtækjum eða í byggingageiranum séu í stéttar­félögum.

Íslensku fyrirtækin eru tólf og þau hafa fyrst og fremst starfsemi í Litháen. Fyrir­tækin eru timbur­fyrirtækin Natural, Byko Lat og CED, textíl­félögin 66 gráður norður og Hampiðjan, svo er Poly­hudun, matvælafyrirtækin Baltic Seafood, EuroFood, Gutta, Leima, Staburadze og lyfjafyrirtækið Ilsanta.

Langstærsti vinnuveitandinn er Norvik, sem á bæði Byko Lat og CED. Þessi fyrirtæki hafa samtals ríflega fjórðung allra starfsmannanna, rúmlega 500. Starfsmenn þeirra eru ekki í stéttar­félögum.

Fyrirtækið Leima, sem er matvælafyrirtæki í eigu Nordic Group, er mjög stórt, með 407 manns í vinnu. Rúmur helmingur starfsmanna þess er í stéttarfélögum. 279 starfa hjá matvælafyrirtækinu Leima, en helmingur starfsmanna þess er í stéttarfélögum.

"Við ætlum að aðstoða verkalýðsfélögin við að koma á kjarasamningum við fyrirtækin en megnið af starfsfólkinu er ekki í verkalýðsfélagi og minnihluti fyrirtækjanna hefur gert kjarasamning við sitt fólk. Þetta er hugsað sem langtímaverkefni og við ætlum að nálgast það á jákvæðum forsendum, fara fram á það við íslensku fyrirtækin að þau geri samning við sitt starfsfólk og taki þátt í að byggja þetta upp," segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar.

Samiðn, Rafiðnaðarsambandið og Starfsgreinasambandið standa að þessu verki. Félögin ætla að óska eftir viðræðum við íslensku fyrirtækin eftir áramót, kynna þeim átakið og óska eftir samstarfi. Síðan verður komið upp tenglum við verkalýðsfélög í baltnesku löndunum. Um langtímaverkefni er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×