Innlent

Brýnt að flugvöllur verði við sjúkrahúsið

"Það er lífsnauðsynlegt að hafa sjúkraflugvöll við hátæknisjúkrahúsið," segir Benóný Ásgrímsson, yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni. "Um 500 sjúkraflug eru farin á ári og þar af sinna þyrlur um hundrað og því teldi ég það mikið ógæfuspor að ætla að reyna að sinna öllu sjúkraflugi með þyrlum," bætir hann við.

"Það er einnig mín skoðun að það væri mikið óréttlæti gagnvart landsbyggðarfólki að á sama tíma og eytt er tugum milljarða af fé allra landsmanna í hátæknisjúkrahús sé aðgengi landsbyggðar­manna skert til þess að komast í hið sama sjúkrahús. Þar af leiðandi er verið að auka hættuna á enn meiri skaða þegar slys eða veikindi ber að á landsbyggðinni og verið að auka á þjáninguna sem verður í slíkum tilfellum. Fjármunirnir færu þannig í að bæta heilbrigðismál Reykvíkinga meðan þau versnuðu fyrir fólk úti á landi," segir Benóný.

Georg Lárusson, forstjóri Land­helgisgæslunar, segir það rétt hjá Benóný að ekki sé hægt að sinna öllu sjúkrafluginu með þyrlum en vill þó ekki taka afstöðu til þess hvort flugvöllurinn verði að vera áfram í Vatnsmýrinni ef hátæknisjúkrahúsið verði byggt við Hringbrautina.

Benóný segir að málið hafi verið hugsað upphaflega í þessu samhengi: "Ég man ekki betur en að ein af forsendunum fyrir því að sjúkrahúsið ætti að rísa við Hringbraut en ekki í Fossvogi hafi verið sú að þar væri gott aðgengi fyrir sjúkrabíla og sjúkraflug," segir hann.

"Það skiptir kannski ekki höfuð­máli hvort flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni eða á Lönguskerjum en ef hann er færður til Keflavíkur hlýtur það að þýða að sjúklingar verða lakar settir sem hingað þurfa að leita, það er alveg augljóst," segir Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans.

Hann telur það ekki raunhæft að sinna öllu sjúkraflugi með þyrlum enda væri það allt of dýrt. Jóhannes M. Gunnarsson, lækningaforstjóri hjá LSH, tekur í sama streng. "Það er rétt hjá Landhelgisgæslunni, þyrlur eru mun hægfleygari og mörgu leyti óhagstæðari."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×