Erlent

Lögreglusveitir lokuðu kjörstöðum

Til óeirða kom á nokkrum kjörstöðum í Egyptalandi eftir að lögregla ákvað að loka þeim. Á þessum stöðum var búist við að stjórnarandstæðingum mundi vegna vel. Lokaumferð egypsku þingkosninganna fór fram í gær og er óhætt að segja að víða hafi verið heitt í kolunum. Lögregla lét loka nokkrum kjörstöðum þar sem félagar í Bræðralagi múslima höfðu verið aðsópsmiklir.

Í bænum Kafr el-Sheik, sem er við óshólma Nílar, var skotið á kjósendur með þeim afleiðingum að einn lést og sextíu særðust. Í nálægu þorpi sættu starfsmenn í kjördeildum barsmíðum öryggissveita. Kjósendur létu aðgerðirnar hins vegar ekki á sig fá heldur klifruðu inn um bakglugga á kjörstað og komust þannig í kjörklefa. Formælandi innanríkisráðuneytisins sagði að­gerðirnar nauðsynlegar þar sem félagar í Bræðralaginu hefðu efnt til óspekta og fælt kjósendur annarra flokka á brott. Hosni Mubarabak forseti hefur undir þrýstingi frá Bandaríkjunum komið á fót nokkrum lýðræðisumbótum. Velgengi frambjóðenda Bræðralagsins í fyrstu tveimur umferðunum er sögð hafa skotið valdhöfunum skelk í bringu og því hefur verið gripið til þessara harka­legu aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×