Erlent

Herinn ekki frá Írak fyrr en verkinu lýkur

Fram til sigurs. 160.000 bandarískir hermenn eru í Írak í dag og segir Bush aðstæður í landinu ráða því hvenær þeir verði kallaðir heim.
Fram til sigurs. 160.000 bandarískir hermenn eru í Írak í dag og segir Bush aðstæður í landinu ráða því hvenær þeir verði kallaðir heim.

Þótt bandarísk stjórnvöld geri ráð fyrir að Írakar taki fljótlega yfir stjórn öryggismála í landinu hafa þau engin áform um að slá nokkru föstu um hvenær Bandaríkjaher snýr aftur heim. Þetta kemur fram í nýrri stefnuskrá stjórnarinnar í málefnum Íraks.

"Bandaríkin munu ekki snúa baki við Írak á meðan ég er yfirmaður hersins," sagði George W. Bush þegar hann kynnti áætlanir stjórnarinnar í herforingjaskóla bandaríska sjóhersins í Annapolis í Maryland í gær.

Ræðan er sú fyrsta í röð ávarpa sem forsetinn hyggst flytja fram að írösku kosningunum 15. desember til að sýna fram á að stjórn hans hafi skýra stefnu um hvernig ná skuli fram sigri í Írak.

Bush lagði áherslu á að uppbygging íraska hersins gengi svo vel að brottför Bandaríkjahers væri í sjónmáli. Hins vegar sagði hann engin áform um að slá því nákvæmlega föstu hvenær brottflutningurinn hæfist, því myndu aðstæður í Írak ráða frekar en "tímaáætlanir stjórnmálamanna í Washington".

Fyrr um daginn kynnti Hvíta húsið "Þjóðaráætlun til sigurs í Írak" þar sem efnahagsleg og póli­tísk markmið Bandaríkjastjórnar með hernámi Íraks eru tíunduð. Fátt nýtt var að finna í skýrslunni heldur voru þar teknar saman helstu röksemdir fyrir hernaðinum þar. Megininntak áætlunarinnar er að helstu markmið stjórnarinnar séu að nást en fullnaðarsigur taki tíma og ýmis ljón séu á veginum.

Gert er ráð fyrir að smám saman verði dregið úr fjölda bandarískra hermanna í landinu, en þeir eru um 160.000 í dag, eftir því sem stjórnmála- og hernaðaruppbygging Íraks vindur fram.

Staðfesta er nauðsynleg því annars verður Írak að griðastað hryðjuverkamanna, íbúar Mið-Austurlanda munu aldrei treysta bandarískri íhlutun aftur og hagsmunir Bandaríkjanna á svæðinu myndu bíða skipbrot brjótist borgarastyrjöld út í landinu í kjölfar ótímabærs brotthvarfs hersins.

Rúmlega tvö þúsund bandarískir hermenn eru fallnir í Írak og stuðningur þjóðarinnar við forsetann og hernámið hefur aldrei verið minni. AP-Ipsos könnun frá því fyrr í þessum mánuði sýnir að 62 prósent Bandaríkjamanna eru andvígir stefnu stjórnarinnar í Írak og einungis 37 prósent segjast almennt ánægð með forsetann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×