Erlent

Efast um lögmæti kjörfundar

Innilegar hamingjuóskir.Vladimir Pútín, forseti Rússlands, óskaði Alu Alkhanov, starfsbróður sínum í Tsjetsjeníu til hamingju með kosningarnar.
Innilegar hamingjuóskir.Vladimir Pútín, forseti Rússlands, óskaði Alu Alkhanov, starfsbróður sínum í Tsjetsjeníu til hamingju með kosningarnar.

Flokkur sem efla vill tengslin við yfirvöld í Moskvu vann yfirburðasigur í þingkosningunum í Tsjetsjeníu á sunnudaginn. Mannréttindasamtök bera brigður á að kosningarnar hafi verið frjálsar og óháðar.

Þegar tveir þriðju hlutar atkvæða höfðu verið taldir virtist allt stefna í að Eining Rússlands, flokkur bandamanna Vladimirs Pútín Rússlandsforseta, hefði fengið 60 prósent þingsæta. Kommúnistaflokkurinn fékk tólf prósent og frjálslyndir ellefu prósent.

Á ríkisstjórnarfundi í gær sagði Pútín ljóst að þingkosningarnar, sem eru þær fyrstu síðan átök blossuðu upp á ný árið 1999, hefðu fest lýðræðið enn betur í sessi og hrósaði kjósendum fyrir einurðina. Andreas Gross, talsmaður Evrópuráðsins í Tsjetsjeníu sagði hins vegar að "andrúmsloft ótta" gegnsýrði allt þjóðlífið í ríkinu og því væri ómögulegt að halda þar lýðræðislegar kosningar. Tatiana Lokshina, meðlimur í rússneskum mannréttindasamtökum kvaðst hafa heimsótt sex kjörstaði þar sem margir hefðu sagt sér að þeir hefðu eingöngu kosið vegna skipunar frá yfirvöldum. Því væri við því að búast að tök þeirra sem vilja styrkja tengslin við sambandsstjórnina í Rússlandi myndu herðast enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×