Innlent

Kemur ekki til umræðu á þessu ári

Mörður Árnason segir liggja á fyrir RÚV að fá lagaramma.
Mörður Árnason segir liggja á fyrir RÚV að fá lagaramma.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir útilokað að frumvarp um Ríkisútvarpið verði að lögum fyrir jól. Ráðherrann sagði í Silfri Egils á NFS í gær að engin slík neyð væri uppi að það kallaði á lagasetningu fyrir jólaleyfi þingsins en það hefst 10. desember. Hann útilokaði þó ekki að frumvarpið kæmi fram á næstu vikum þó umræður um það og afgreiðsla biðu nýs árs.

Kjartan Ólafsson, sem situr í menntamálanefnd Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn, segir engu breyta hvort frumvarp um Ríkisútvarpið komi fram fyrir eða eftir áramót. Himinninn ferst ekki þó það gerist ekki strax, segir hann en ítrekar að menntamálaráðherra hafi boðað komu frumvarpsins og hann bíði þess rólegur.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir Ríkisútvarpinu liggja verulega á að fá nýjan lagaramma. Ríkisútvarpið hefur í tuttugu ár þurft á því að halda að hlutverk þess væri skilgreint og stjórnarháttum þess komið í nútímalegt horf.

Langt er síðan vinna hófst í menntamálaráðuneytinu við smíði frumvarps um Ríkisútvarpið og telur Mörður einkum tvennt tefja verkið. Annars vegar gerði ESA alvarlegar athugasemdir við frumvarpið frá í fyrra og hins vegar er tregða í Framsóknarflokknum við að sætta sig við hlutafélagaformið sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í fyrra. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin telja hins vegar að sjálfseignarstofnunarformið sé það besta fyrir RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×