Erlent

Lentu fimmtán sinnum í Evrópu á síðasta ári

Frank-Walter Steinmeier 
utanríkisráðherra Þýskalands vill fá svör við orðrómi um að flugvöllurinn í Frankfurt hafi verið notaður í fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar.
Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands vill fá svör við orðrómi um að flugvöllurinn í Frankfurt hafi verið notaður í fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar.

Þotur á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, með grunaða hryðjuverkamenn innanborðs, hafa lent að minnsta kosti fimmtán sinnum á evrópskum flugvöllum á síðasta ári.

Þetta kemur fram í dagblaðinu Berliner Zeitung. Segir þar að hugsanlega hafi slíkar vélar lent á flugvellinum í Frankfurt. Til að mynda sagði austurríski herinn nýverið að þota frá CIA, sem líklega hefði verið með fanga um borð, hefði flugið yfir landið á leið frá Frankfurt til Aserbaídsj­an árið 2003.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa. "Sem utanríkisráðherra þarf ég að vega og meta staðreyndir í málinu, ekki það sem stendur í blaðagreinum," sagði Steinmeier í viðtali við Bild.

"Það sem stendur í blaðinu er engu að síður eitthvað til að hafa áhyggjur af. Þess vegna tel ég að það væri gott fyrir Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, að grennslast fyrir um málið fyrir hönd Evrópusambandsins," sagði hann.

Í greininni í Berliner Zeitung kemur einnig fram að Rammstein-flugstöðin í Þýskalandi sem er í eigu Bandaríkjamanna hafi verið notuð fyrir flug CIA á árunum 2002 til 2004.

Steinmeier mun á þriðjudag funda með bandarískum ráðamönnum, þar á meðal utanríkisráðherrandum Condoleezzu Rice. Ekki er vitað hvort hann muni taka fangaflugið fyrir á fundinum.

Bandaríkjamenn hafa viðurkennt að til séu leynileg fangelsi á þeirra vegum.

Flest lönd í Austur-Evrópu hafa neitað því að slík fangelsi sé þar að finna, eins og orðrómur hefur verið uppi um. Talið er að Bandaríkjamenn hafi flutt grunaða hryðjuverkamenn í fangelsi út fyrir landsteinana þar sem lög gegn pyntingum eru ekki við lýði. Fyrir vikið hafi þeir þurft að millilenda vélum sínum í hinum ýmsu Evrópulöndum, þar á meðal í Þýskalandi og á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×