Innlent

32.000 jólatré flutt til landsins

Jólatréð komið upp á Ráðhústorgi. Búið er að setja upp jólatréð á Ráðhústorginu á Akureyri og verður kveikt  á því við hátíðlega athöfn í dag.
Jólatréð komið upp á Ráðhústorgi. Búið er að setja upp jólatréð á Ráðhústorginu á Akureyri og verður kveikt á því við hátíðlega athöfn í dag.

Af þeim fjörutíu þúsund jólatrjám sem íslenskur markaður þarfnast fyrir hver jól koma átta þúsund úr íslenskum skógum. 32 þúsund tré eru innflutt og eru flest þeirra danskur Nordmannsþinur. Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktar ríkisins, segir jólatré háð tískusveiflum eins og annað.

"Dönum hefur tekist að markaðssetja sinn Nordmannsþin um alla Evrópu og það er tískujólatré í álfunni." Nordmannsþin er ekki hægt að rækta á Íslandi þar sem hann er ekki aðlagaður íslenskum aðstæðum. Rauðgreni er það íslenska tré sem flestir kjósa og segir Þröstur að um fjögur þúsund slík séu felld fyrir jólin.

"Rauðgrenið er hið hefðbundna jólatré um allan heim en það er ekki jafn barrheldið og Nordmannsþinurinn." Sjálfur skreytir Þröstur heimili sitt með stafafuru sem hann segir barrheldna og fallega. Skógarhöggið hófst í fyrri hluta nóvember og stendur fram í miðjan desember.

Í fyrstu voru aðeins hoggin tré sem fara til skreytinga utanhúss en nú nýlega hófust starfsmenn Skógræktarinnar handa við að höggva innitrén. Grisjun hefur orðið meðal jólatrjáaræktenda í Danmörku en umframframleiðsla var þar mikil síðustu ár. Hafa margir farið í þrot og framboðið því fjarri því sem var. Fyrir vikið hefur verðið hækkað. Gísli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Garðheima, segir viðbúið að verð á jólatrjám hækki því eitthvað frá því sem var í fyrra en óljóst sé hve hækkunin verði mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×