Innlent

Kynbundið ofbeldi lítið rætt

Palestínska konan Nadya Engler segir margar konur í Palestínu telja eiginmenn sína hafa rétt á að beita ofbeldi heima við.
Palestínska konan Nadya Engler segir margar konur í Palestínu telja eiginmenn sína hafa rétt á að beita ofbeldi heima við.

"Átak til að opna umræðu um kynbundið ofbeldi í Palestínu varð að veruleika í kjölfar rannsókna rannsóknar- og þróunarsetursins Bisan á heimilisofbeldi. Í fyrsta lagi beinist átakið að læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Markmið okkar er að fá þann hóp til að vekja máls á stöðu heimilisofbeldis og öðrum myndum kynbundins ofbeldis í Palestínu og að málefnið fái viðurkenningu innan heilbrigðisþjónustunnar," segir Nadya Engler sem starfar fyrir Bisan og var heiðursgestur á fundi UNIFEM á Íslandi um kynbundið ofbeldi sem fram fór í gær.

"Í öðru lagi höfum við reynt að fá félagsráðgjafa, kennara og kvennasamtök til að leggja sitt af mörkum til að opna umræðuna. Við höfum komist að því að það er hærri tíðni heimilisofbeldis innan fjölskyldna ef aðili þar hefur orðið fyrir pólitísku ofbeldi."

Engler segir þetta vera alvarlegt vandamál í Palestínu, meðal annars vegna intifada-uppreisnar Palestínumanna gegn landtöku Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum.

"Vegna takmarkaðs ferðafrelsis þjóðarinnar eru konur sem verða fyrir heimilisofbeldi illa staddar, þær geta síður leitað til læknis eða tilkynnt ofbeldið þar sem maðurinn er meira heima við og því í stöðugu návígi við konuna.

Spurð hvort palestínskar konur sem verða fyrir heimilisofbeldi telji sig eiga það skilið, svarar Engler játandi. "Margar konur telja eiginmenn sína hafa rétt á að beita ofbeldi heima við vegna gremjunnar sem er í samfélaginu gegn ísraelskum stjórnvöldum. Við könnuðum líka viðhorf heilbrigðisstarfsfólks til heimilisofbeldis og komumst að því að 33 prósent vilja ekki skipta sér af málum sem tengjast heimilisofbeldi. Því finnst það ekki vera á sína ábyrgð að skipta sér af því sem gerist innan fjölskyldunnar," segir Engler.

"Við höfum reynt að kynna fyrir heilbrigðisstarfsmönnum lagareglur annarra þjóða varðandi heimilisofbeldi, hvernig meðhöndlun það fær í öðrum löndum og hvernig alþjóðalög fjalla um það. Þá höfum við vakið máls á hvernig á að greina ummerki heimilisofbeldis og hvernig á að hlúa að fórnarlömbunum. Nýsköpunin í verkefninu felst í að við höfum leitast við að þróa einhvers konar siðareglur og vekja upp ábyrgðartilfinningu meðal heilbrigðisstarfsmanna um hvernig skuli meðhöndla ofbeldi gegn konum. Við bendum læknum á að kona sem, til dæmis, er handleggsbrotin, verði ekki eingöngu skráð með handleggsbrot á læknaskýrslu ef grunur leikur á öðru. Með öðrum orðum að þeir geri sér grein fyrir heildarmyndinni og ábyrgð sinni í málinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×