Innlent

Gæti veitt 25 manns atvinnu

Þórir Kjartansson. Miklar vonir eru bundnar við að vikursteinsverksmiðja í Mýrdalnum verði að veruleika.
Þórir Kjartansson. Miklar vonir eru bundnar við að vikursteinsverksmiðja í Mýrdalnum verði að veruleika.

Athafnamenn í Vík í Mýrdal vinna að undirbúningi verksmiðju þar sem meðal annars yrði unnið byggingaefni úr Kötlu­vikri. Það eru eigendur jarðanna Hjörleifshöfða, Reynisbrekku og Höfðabrekku sem standa að þessu verkefni en rannsóknir á vikrinum gefa mjög góðar vísbendingar um að verksmiðja af þessu tagi verði arðbær.

Á fundi með fulltrúum fjárfestingastofu iðnaðarráðuneytis í gær var gengið frá samkomulagi um að stofan fái mann til að vinna að markaðsrannsóknum fyrir vikurinn. "Við sjáum fyrir okkur að svona verksmiðja gæti veitt 20-25 manns atvinnu og þetta er í raun það eina sem við sjáum í atvinnuuppbyggingu hér á svæðinu," segir Þórir Kjartansson, eigandi Víkurprjóns, en hann er einn af frumkvöðlum verkefnisins.

Hann segir vikurinn líka nýtanlegan í alls konar ræktun. "Vikurinn er kjörefni fyrir bæði mat- og skrautjurtaræktun," segir hann. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan kosti sex til sjö hundruð milljónir en útreikningar sýna að hún gæti strax náð veltu upp á einn til einn og hálfan milljarð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×