Erlent

Ráðamenn hóta refsingum

Beðið eftir vatninu. Langar raðir hafa myndast í Harbin eftir vatni og lætur þyrst fólkið ekki fimbulkulda á sig fá.
Beðið eftir vatninu. Langar raðir hafa myndast í Harbin eftir vatni og lætur þyrst fólkið ekki fimbulkulda á sig fá.

Eiturflekkurinn í Songhua-fljóti marar nú úti fyrir Harbin í Kína. Þriðji vatnslausi dagurinn í borginni rann upp í gær en íbúarnir bera sig engu að síður vel. Tæpum hálfum mánuði eftir að sprenging varð í efnaverksmiðju í bænum Jilin hafa kínversk stjórnvöld ákveðið að senda rannsóknarnefnd á vettvang og rannsaka málið.

Óhappið kostaði fimm mannslíf og varð til þess að þúsundir tonna af eiturefninu bensen flæddu út í Songhua-fljót. Xinhua-ríkisfréttastofan segir að þeim verði refsað sem ábyrgð beri á slysinu. Fjölmiðlar hafa gagnrýnt stjórnvöld óvenju harkalega fyrir að mistakast að greina bensenmengunina, hugsanlega þá mestu í sögunni, og láta hjá líða að upplýsa íbúa svæðisins um eitrunarhættuna fyrr en mörgum dögum eftir að slysið varð.

Þótt ekki sé búist við að vatnsdæling úr fljótinu til íbúa Harbin hefjist á ný fyrr en á mánudag bera íbúarnir sig vel enda hafa brunnar verið grafnir og vatnsbílar streymt á vettvang. Í suðvesturhluta landsins varð að flytja sex þúsund manns á brott eftir að sprenging varð í efnaverksmiðju þar og að vonum vaknaði ótti um að svipað mengunarslys væri í uppsiglingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×