Erlent

Schröder segir skilið við stjórnmálin

Eftir sjö ár við stjórnvölinn í Þýskalandi er Gerhard Schröder nú hættur beinum afskiptum af stjórnmálum og ætlar að snúa sér að lögmannsstörfum og skrifa pólitískar endurminningar sínar.

Schröder sagði af sér þingmennsku á miðvikudaginn, daginn eftir að hann og eftirmaður hans í embætti, Angela Merkel, handsöluðu kanslaraskiptin í kansl­arahöllinni í Berlín. Það eina sem hann hefur gefið upp um það sem hann hyggst nú taka sér fyrir hendur er að hann vill snúa sér aftur að lögmannsstörfum og skrifa pólitískar endurminningar sínar.

Hann hefur þegið ráðgjafarstarf hjá svissnesku blaðaútgáfunni Ringier en hefur annars neitað því að hann muni þiggja tilboð um setu í stjórnum fyrirtækja.

Á þessum sjö árum sem samsteypustjórn jafnaðarmanna og græningja var við völd, undir forystu Schröders, hefur margt breyst. Þýska ríkisstjórnin lauk flutningum frá Bonn til Berlínar, þýskir hermenn tóku í fyrsta sinn frá stofnun Sambandslýðveldisins þátt í hernaðaraðgerðum á erlendri grundu (Kosovo, Afganistan) en með andstöðunni við innrásina í Írak var sú fylgispekt rofin sem þýskir ráðamenn höfðu tamið sér í kalda stríðinu að sýna bandamanninum stóra vestanhafs í alþjóðamálum.

Schröder hefur í nafni nýrrar sjálfstæðrar utanríkisstefnu sameinaðs Þýskalands mótað hugtakið "miðlungsveldi" (Mittelmacht), sem hann kennir gjarnan einnig við frið. En innanlands eru það aðrir þættir sem "rauð-græna" tímabilsins er helst minnst fyrir, svo sem að ákveðið hefur verið að loka kjarnorkuverum landsins og setja skilagjald á öldósir og vegatoll á vörubíla.

Það sem einna þyngst vegur er þó að skuldir þýska ríkisins eru orðnar meiri en þær voru árið 1998 og það sem verra þykir, atvinnuleysið er líka orðið enn meira en það var þá. Arfleifð stjórnartíðar Schröders er því blendin.

"Eftir sjö ár yfirgefur Gerhard Schröder stjórnvölinn, án þess að hafa tekist að leysa vandamálin sem hann ætlaði sér. En þó var Schröder alls ekki eins slæmur kanslari og ætla mætti af arfleifð hans," skrifar þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung um þessi tímamót.

Umbæturnar banabitinn

Það sem á endanum reyndist banabiti hinnar "rauð-grænu" ríkisstjórnar Schröders, var að hún mannaði sig upp í að hrinda í framkvæmd umbótum á velferðarkerfinu, sem komu illa við ýmsa skjólstæðinga þess og sköpuðu stjórninni því óvinsældir. Schröder stóð fyrir umbótaáætluninni "Dagskrá 2010" í þeirri sannfæringu að Þýskaland gæti fjárhagslega hreinlega ekki leyft sér lengur að láta velferðarkerfið blása áfram út eins og það gerði síðustu áratugina.

Hermt er að Schröder hafi sannfærst um að það væri landinu lífsnauðsynlegt að þessar kerfisumbætur kæmust til framkvæmda. Jafnvel þótt það kostaði hann embættið.

Schröder var fyrst kjörinn á Sambandsþingið árið 1980. Hann varð leiðtogi jafnaðarmanna í stjórnarandstöðu á þingi Neðra-Saxlands árið 1986 og síðan forsætisráðherra þess 1990-1998. Kanslari varð hann þann 27. október 1998, eftir að Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) og þýski Græningjaflokkurinn náðu saman meirihluta á Sambandsþinginu og bundu þar með enda á 16 ára stjórnartíð Helmuts Kohl og samsteypustjórnar flokks hans, kristilegra demókrata (CDU), með smáflokki frjálsra demókrata (FDP).

Það þótti ganga kraftaverki næst að "rauð-græni" meirihlutinn hélst í kosningunum 2002, en þá hafði hann nauman sigur ekki síst vegna þess hvernig Schröder tókst að virkja friðarhyggju Þjóðverja í kosningabaráttunni með afdráttarlausri afstöðu gegn hernaðaríhlutun í Írak.

Schröder kom í nokkurra daga opinbera heimsókn til Íslands í nóvember 1997, þá sem forsætisráðherra Neðra-Saxlands, en skömmu síðar var hann formlega útnefndur kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins í kosningunum til Sambandsþingsins haustið 1998, sem skiluðu honum í kanslarastólinn.

Schröder kom aftur til Íslands árið 2000. Hann sýndi reyndar vinarhug sinn til Íslands með ýmsu móti í kanslaratíð sinni. Til dæmis gaf hann sér tíma til að opna íslenska menningarhátíð í Berlín og eiga við það tækifæri fund með Davíð Oddssyni þáverandi forsætisráðherra í september 2002, en þá stóð tvísýn barátta kanslarans fyrir endurkjöri sem hæst.

Félagi forstjóranna og leiðtogi félaganna

Bæði áður og eftir að hann náði á toppinn var Schröder umdeildur innan Jafnaðarmannaflokksins. Hann þótti eiga erfitt með að fara eftir "flokkslínunni" og fylgdi þess í stað eigin stefnu, sem að minnsta kosti að mati vinstri arms flokksins þótti ískyggilega vinsamleg atvinnurekendum.

Í viðtali sem undirritaður tók við Schröder í heimsókn hans hingað fyrir átta árum (það birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 1997) sagði hann um þetta: "Ég held að það sé satt að efnahagslífið sé örlög okkar. Okkar fólk, sem við viljum að kjósi okkur, ætlast til þess að við temjum okkur uppbyggilega afstöðu til efnahagslífsins. Það er ekki hægt að útdeila öðru til félagslegra þarfa en því sem fyrst hefur verið aflað. Við verðum öll að venjast þessum staðreyndum. Að vera álitinn "vinur atvinnulífsins" tel ég hreint ekki ókost, heldur öllu frekar mér til framdráttar."

Hann bætti því við að hann teldi það skyldu sína sem stjórnmálamanns að beita sér fyrir því að efnahagslífið blómstri; í þágu bæði launþega og atvinnurekenda.

Með þessari stefnu sinni var Schröder óneitanlega í takt við Tony Blair, sem skömmu áður hafði komizt til valda í Bretlandi.

Eftir að Oskar Lafontaine, þáverandi formaður SPD, fór með hurðaskellum úr stjórninni og síðar flokknum innan við ári eftir myndun "rauð-grænu" stjórnarinnar, varð Schröder formaður flokksins og komst þannig í aðstöðu til að sveigja hann frekar inn á sína línu. En hann náði aldrei sambærilegum tökum á honum og Blair á breska Verkamannaflokknum.

Hann sagði af sér flokksformennskunni árið 2004, eftir hrakfarir SPD í hverjum héraðsþingkosningunum á fætur öðrum.

Fulltrúi eftirstríðskynslóðarinnar

Í kveðjugrein Süddeutsche Zeitung um Schröder sem kanslara er hann sagður fulltrúi eftirstríðskynslóðarinnar hliðstætt því sem Kohl var fulltrúi kynslóðarinnar sem varð vitni að hörmungum stríðsins.

Kohl komst á unglingsaldur á stríðsárunum en Schröder fæddist vorið 1944, hálfu ári áður en faðir hans féll á vígstöðvunum. Schröder var alinn upp í fátækt en tókst að vinna sig alla leið upp í kansl­arastólinn.

"Þar var hann betri fulltrúi fyrir Þýskaland en beztu atvinnudiplómatar þess. Hann var Þýskaland eftirstríðsáranna, efnahagsundurs, og efnahagsundurskrepputímans. Hann var eftirstríðsbarn eins og fyrirrennari hans Kohl var stríðsbarn."

Í lok viðtalsins sem tekið var við hann í rútu á leið út í Svartsengi fyrir átta árum svaraði Schröder spurningu um það hvers vegna hann teldi eftirsóknarvert að komast í embætti þar sem vinnudagurinn væri allt að átján vinnustundir og einkalíf svo til ekkert, á þessa leið: "Sá sem ekki er tilbúinn að helga svo miklu af tíma sínum starfinu á ekkert erindi í hápólitísk embætti í Þýskalandi."

Hann átti eftir að sýna það næstu sjö árin, að hann naut þess að gegna þessu háa embætti. "Gerhard Schröder byrjaði sem kanslari vinsældanna, varð síðan kanslari tækifærismennsku, þá kanslari óvinsældanna og loks þrjóskunnar," skrifar Süddeutsche.

"Hann tróð á flokknum sínum og sleikti hann síðan upp eins og elskhugi," bætir blaðið við. "En í lokin elskaði SPD hann: tudda-kanslarann; þennan tortryggna krata númer eitt; hann sem í byrjun var félagi forstjóranna og síðan aftur leiðtogi félaganna.

Schröder var Þýskaland, í öllum sínum mótsögnum; í vilja sínum og vangetu; í stöðnun sinni og krafti, í tilburðum sínum, viðkvæmni, hörku."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×