Erlent

Öflug sprenging við sjúkrahús

Lík á börum. Þrjátíu létust í árás á sjúkrahús í Mahmoudiya í gær en innandyra voru bandarískir hermenn að útbýta leikföngum.
Lík á börum. Þrjátíu létust í árás á sjúkrahús í Mahmoudiya í gær en innandyra voru bandarískir hermenn að útbýta leikföngum.

Þrjátíu manns biðu bana þegar bíl hlöðnum sprengiefni var ekið að sjúkrahúsi í bænum Mahmoudiya og hann svo sprengdur í loft upp. Talið er að árásarmaðurinn hafi ætlað að drepa bandaríska hermenn sem voru að heimsækja börn á spítalann með leikföng í farteskinu. Honum tókst þó ekki að aka bifreið sinni lengra en að öryggishliði sjúkrahússins þar sem hann svo kveikti á vítisvélinni.

Á meðal þeirra þrjátíu sem biðu bana voru þrjár konur og tvö börn. 35 slösuðust, þar á meðal nokkrir hermenn. Þá létust ellefu manns í bænum Hillah þegar bílsprengjuárás var gerð á hóp fólks sem var að kaupa sér svaladrykki af götusala síðdegis.

Latih Kubba, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi í gær að búast mætti við að uppreisnarmenn myndu færast í aukana á næstu vikum til að spilla fyrir kosningunum 15. desember næstkomandi. Sú kenning virðist eiga við rök að styðjast því í fyrradag réðust menn íklæddir herklæðum inn á heimili Khadim Sarhid al-Hemaiyem, stjórnmálamanns úr röðum súnnía, og skutu hann og þrjá syni hans og tengdason til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×