Erlent

Eiturflekkurinn kominn til Harbin

Vatns er þörf Ílát, stór og smá, eru eftirsóttasti varningurinn í Harbin þessa dagana.
Vatns er þörf Ílát, stór og smá, eru eftirsóttasti varningurinn í Harbin þessa dagana.

Vatnsból kínversku borgarinnar Harbin eru ennþá lokuð vegna bensenmengunar í Songhua-fljóti en flekkurinn barst þangað í fyrrinótt.

Fyrir tæpum hálfum mánuði varð sprenging í efnaverksmiðju í Jilin, sem er 380 kílómetrum ofar við Songhua-fljótið, og ókjör af eiturefninu bensen runnu út í ána.

Bensen er leysiefni sem til dæmis er notað til málningargerðar. Efnið getur valdið hvítblæði og dauða, sé þess neytt í stórum skömmtum. Songhua-fljót sér 3,8 milljónum íbúum Harbin fyrir neysluvatni.

Stjórnvöld í héraðinu létu hins vegar engan vita um slysið fyrr en í vikubyrjun þegar skrúfað var fyrirvaralaust fyrir vatnsleiðslur. Í kjölfarið varð talsverð skelfing þegar þyrstir borgarbúar tóku að sanka að sér því hreina vatni sem völ var á. Fljótlega jókst þó upplýsingagjöfin og jafnframt tóku vatnsbílar að streyma til borgarinnar úr nálægum byggðum.

Í gær var komið með 16.000 tonn af vatni til Harbin og mynduðust að sögn ríkisfréttastofunnar Xinhua langar raðir fólks með fötur, könnur, kúta og katla.

Seint í gærkvöld náði eiturflekkurinn loks til Harbin og er búist við að það taki áttatíu kílómetra breiða eiturblönduna fjörutíu klukkustundir að streyma framhjá borginni. Þegar ófögnuðurinn er runninn hjá segjast yfirvöld ætla að hreinsa árfarveginn tryggilega.

Tugir þúsunda borgarbúa hafa yfirgefið borgina undanfarna daga.

Fréttaritari Lundúnablaðsins Times í borginni segir að ógerningur sé að kaupa sér miða í lestir eða flugvélar en þær snúi síðan aftur til baka galtómar.

Ekki er vitað til að nokkur hafi orðið fyrir eitrun en fimmtán sjúkrahús eru þó höfð í viðbragðsstöðu. Ennfremur er ekki ljóst hvort íbúar bæja ofar við fljótið hafi bergt á vatninu áður en viðvaranir voru gefnar út. Neyðarlög taka gildi í dag í Khabarovsk-héraði í Rússlandi en búist er við að bensenflekkurinn berist þangað í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×