Erlent

Samstaða um að herliðið víki

Stungið saman nefjum. Þessir herramenn voru á meðal þeirra sem ræddu málin á ráðstefnunni í Kaíró.
Stungið saman nefjum. Þessir herramenn voru á meðal þeirra sem ræddu málin á ráðstefnunni í Kaíró.

Þjóðarbrotin í Írak samþykktu einum rómi ályktun á ráðstefnu Arababandalagsins um að erlent herlið skuli yfirgefa landið innan tilsetts tímaramma og landsmenn taki sjálfir að sér löggæslu og landvarnir. Þetta er í fyrsta sinn sem sátt næst um málið.

Ráðstefnuna sátu áhrifamenn í írökskum stjórnmálum, þar á meðal Jalal Talabani forseti, en hún fór fram í Kaíró í vikubyrjun. Í ályktun þingsins segir að "erlendar hersveitir skuli á brott úr landinu samkvæmt settum tímaramma og um leið skuli sérstakri áætlun um uppbyggingu Írakshers hrint í framkvæmd."

Gert er ráð fyrir að önnur ráðstefna, sem haldin verði í febrúar, ákveði tímamörkin nánar. Dagblaðið Independent hefur hins vegar eftir Bayan Jabr innanríkisráðherra að Írakar verði sjálfir í stakk búnir til að sjá um öryggismál landsins í síðasta lagi í árslok 2006. Samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna verður erlenda hernámsliðið að yfirgefa Írak fari ríkisstjórn landsins fram á það. Sjíar hafa hins vegar verið tregir til að setja dagsetningar í þeim efnum því þeir óttast að uppreisnarmenn muni þá bíða átekta þangað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×