Erlent

Rússar bjóða Írönum aðstoð

Ábúðarfullur Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er staddur í Írak þessa dagana til skrafs og ráðagerða.
Ábúðarfullur Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er staddur í Írak þessa dagana til skrafs og ráðagerða.

Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra munu ekki beita sér fyrir því að Íranar verði kærðir til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á fundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA í vikunni. Stjórn IAEA kemur saman síðar í vikunni en fastlega var búist við að þar yrði ákveðið að biðja öryggisráð SÞ um að ákveða refsiaðgerðir gegn Írönum fyrir að halda áformum um auðgun úrans til streitu.

Í staðinn ætla Rússar að bjóðast til að auðga úran fyrir Írana nægilega til að hægt sé að nota það í kjarnorkueldsneyti en ekki svo mikið að það megi nota í kjarnaodda. Rússar njóta áhrifa í Teheran en aðalástæða ákvörðunarinnar er þó sögð sú að Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðirnar í stjórn IAEA eru ekki vissar um að ná að koma málinu í gegn þar sem ný ríki, sem ekki eru jafn hliðholl Vesturlöndum, hafa tekið þar sæti, til dæmis Kúba og Sýrland.

Ef Íranar hafna þessum skilmálum er erfitt fyrir bandamenn þeirra að standa gegn því að öryggisráðið fái málið til umfjöllunar. Íranska þingið samþykkti á sunnudag að banna eftirlitsmönnum IAEA að heimsækja kjarnorkuver sín, færi svo að Íran yrði kært til öryggisráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×