Innlent

Beðið er ákvörðunar um ákærur

Fundur ríkislögreglustjóra með Samkeppnisstofnun Georg Ólafsson, fyrrum forstjóri Samkeppnisstofnunar, tekur í hendina á Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra á fundi þeirra júlílok 2003. Engin niðurstaða var af fundinum. Til hliðar standa Ásgeir Einarsson, lögfræðingur Samkeppnisstofnunar og Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.
Fundur ríkislögreglustjóra með Samkeppnisstofnun Georg Ólafsson, fyrrum forstjóri Samkeppnisstofnunar, tekur í hendina á Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra á fundi þeirra júlílok 2003. Engin niðurstaða var af fundinum. Til hliðar standa Ásgeir Einarsson, lögfræðingur Samkeppnisstofnunar og Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Ríkissaksóknari fer þessa dagana yfir rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkis­lögreglustjóra á samráði olíufélaganna. Þess er beðið hvort og hversu umfangsmiklar ákærur verði gefnar út í málinu. Rannsökuð voru meint brot félaganna og stjórnenda þeirra á samkeppnislögum frá 1993, en við stórfelldum brotum liggur allt að fjögurra ára fangelsi.

Í tilkynningu ríkislögreglustjóra um lok rannsóknarinnar, sem staðið hefur í rétt rúm tvö ár, kemur fram að ætluð brotatilvik nemi hundruðum. Áttatíu manns voru yfirheyrðir, sumir ítrekað.

Vandræðagangur einkenndi upphaf rannsóknar lögreglu síðla árs 2003 og marka lok rannsóknarinnar nú því nokkur tímamót. Eftir að rannsókn samkeppnisyfirvalda hófst kom upp ágreiningur milli stofnunarinnar og ríkislögreglustjóra og virtist lengi vel sem lögreglan vildi ekkert af málinu vita. Meðal annars neitaði ríkislögreglustjóri að taka við gögnum Samkeppnisstofnunar í júní árið 2003, liðlega einu og hálfu ári eftir húsleit stofnunarinnar hjá olíufélögunum. Hálfu ári eftir húsleitina tilkynnti Samkeppnisstofnun þó að hún teldi sig hafa komið upp sannanir um lögbrot einstaklinga við samráðið.

Rannsókn var lengi í gang
@Mynd -FoMed 6,5p CP:Samkeppnisstofnun leggur hald á gögn hjá Skeljungi í desember 2001 Gerð var húsleit og haldlögð gögn hjá olíufélögunum 18. desember árið 2001. Í kjölfarið var nokkuð hart deilt á rannsóknarheimildir Samkeppnisstofnunar og kallaði Verslunarráð meðal annars eftir því að viðskiptaráðuneytið legðist yfir málið. Fréttablaðið/E.Ól.

Töluvert áður en Samkeppnis­stofnun lét til skarar skríða gegn olíufélögunum höfðu henni borist ábendingar um verðsamráð, án þess að aðhafst væri. Haustið 2001 fór Magnús Kristinsson, formaður Útvegsbændafélags Vest­mannaeyja, fram á það með bréfi til stofnunarinnar að rannsókn hæfist á samráði. Magnús var einnig varamaður í stjórn Olíufélagsins. Þá var meint samráð einnig mjög til umræðu á aðalfundi LÍÚ sama ár. Kristján Ragnarsson, þáverandi formaður, var harðorður og krafðist opinberrar rannsóknar.

Meðferð samkeppnisyfirvalda á málum olíufélaganna lauk að mestu með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála núna í byrjun árs, þar sem sektargreiðslur sem samkeppnisráð hafði lagt á félögin voru lækkaðar um nálægt því milljarð króna. Þó er sú undantekning á að Samkeppniseftirlitið, eins og það heitir nú, hefur enn til skoðunar hvort ástæða sé til að taka upp þátt Bensínorkunnar. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar var kom­ist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið gætt andmælaréttar Bensín­orkunnar og því felldur úr gildi sektarúrskurður upp á 40 milljónir króna.

Einkamál í pípunum
@Mynd -FoMed 6,5p CP:Fréttaskýring Óli Kristján Ármannsson olikr@frettabladid.is

En olíumálinu er fjarri því lokið því verði gefnar út ákærur má gera ráð fyrir því að það velkist lengi í réttarkerfinu, bæði í héraði og Hæstarétti. Þá eru bæði í bígerð og komin í gang ýmis einkamál á hendur olíufélögunum þar sem krafist er skaðabóta fyrir samráð þeirra.

Lögmaður Reykjavíkurborgar á í samræðum við lögmenn olíufélaganna þriggja um hvort samkomulag geti náðst um skaða­bótagreiðslu frá þeim vegna sam­ráðs við útboð á vegum borgar­innar árið 1996. Náist ekki lending í málinu hefur borgin lýst því yfir að hún muni fara í mál við félögin. Borgin krefst rúmlega 150 milljóna króna í bætur fyrir samráðið, en viðræðurnar hafa nú staðið yfir síðan um miðjan október. Á vegum Neytendasamtakanna hefur þegar verið höfðað eitt mál til skaðabóta vegna verð­samráðsins, en byrjað var á máli eins félagsmanns samtakanna sem passaði vel upp á allar bensínnótur. Væntanlega fer það svo eftir niðurstöðu þess máls hvort höfðuð verða fleiri, eða hvort aðrir geta á grundvelli dómsins samið við félögin um bætur. Aðrir sem íhuga hvort lögsækja beri félögin eru til dæmis útgerðarmenn, Flugleiðir, Landhelgisgæslan og mögulega dómsmálaráðuneytið vegna lög­reglu­embætta landsins. Þá er vitað til þess að Vegagerðin fylgist með framvindu mála, en í úttektum samkeppnisyfirvalda kemur fram að heilmikið var svindlað á henni. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri hefur þó lýst því yfir að ekkert hafi verið ákveðið þar á bæ um mögulegt skaðabótamál.

Grundvallaratriði í saksókn

Jón H. Snorrason, sem bæði er saksóknari og yfirmaður efna­hagsbrota­deildar ríkis­lögreglu­stjóra, segist ekki sjálfur taka ákvörðun um saksókn í því vegna þess að taka þurfi afstöðu til grund­vallaratriða í málinu sem rétt sé að ríkissaksóknari geri. Þessi atriði segir hann snúa að því að hversu miklu leyti skuli taka tillit til fyrri rannsókna samkeppnisyfirvalda þegar smíðaðar eru ákærur.

Ljóst má þó vera að ekkert gaman­mál er að fá á sig ákæru fyrir stórfelld brot gegn sam­keppnis­lögum, en það hlýtur jú olíu­samráðið að teljast, enda upp­hæðir allar gríðarháar og brot ná yfir langan tíma. Í 42. grein lag­anna segir að brot gegn þeim, auk reglna og fyrirmæla settum sam­kvæmt þeim, varði fésektum eða fangelsi í allt að tvö ár. "En fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar," segir í lögunum. Þá geta menn auk fangelsisvistar átt yfir höfði sér fésektir, enda virðist um suma að minnsta kosti eiga við skilyrði 49. greinar almennra hegningarlaga um að þeir hafi "aflað sér eða öðrum fjárvinnings með brotinu."

Tímasetningar í olíumálinu
18. desember 2001Samkeppnisstofnun gerir húsleit hjá olíufélögunum.

janúar 2002 Verslunarráð kallar eftir því að við­skipta­ráðu­neyti kanni aðferðir Sam­keppnis­stofnunar.
13. febrúar 2002Ráðuneytið hafnar erindi Verslunarráðs.
1. mars 2002Olíufélagið ákveður að starfa með Samkeppnisstofnun.
3. maí 2002Hæstiréttur hafnar kröfum Skeljungs um að Samkeppnisstofnun eyði afritum af rafrænum gögnum.
16. júni 2003Ríkislögreglustjóri neitar að taka við frumskýrslu Samkeppnisstofnunar þegar fulltrúar hennar reyna að kynna embættinu niðurstöður sínar í málinu.
17. júlí 2003Fréttablaðið birtir ágrip úr frum­­skýrslu Samkeppnisstofnunar.
22. júlí 2003Tæknimaður Símans er rekinn fyrir að senda Kristni Björnssyni, for­stjóra Skelj­ungs, harðorðan tölvupóst á bréfsefni Símans um meint samráð olíufélaganna.
28. júlí 2003Samkeppnisstofnun og Ríkis­lögreglustjóri funda án niðurstöðu.
21. ágúst 2003Ríkissaksóknari fer fram á að ríkislögreglustjóri afli fullnægjandi gagna frá Samkeppnisstofnun til að unnt sé að athuga hvort hefja þurfi opinbera rannsókn.
september 2003Efnahagsbrotadeild ríkis­lögreglu­stjóra móttekur gögn frá Sam­keppnisstofnun.
október 2003Hafin er opinber rannsókn hjá embætti ríkislögreglustjóra á ætluðum brotum olíufélaganna, félögunum, æðstu stjórnendum og millistjórnendum.
26. nóvember 2003Fjárlaganefnd Alþingis legg­ur til aukafjárveitingu vegna aukins um­fangs starfa efnahagsbrotadeildar ríkis­lög­reglustjóra.
5. desember 2003Forsvarsmenn olíu­félaganna fá afhentan seinni hluta frum­skýrslu Samkeppnisstofnunar um ólöglegt sam­ráð þeirra.
29. janúar 2004Samkeppnisstofnun veitir olíu­félögunum frest fram í apríl til að skila and­mælum vegna skýrslu stofnunarinnar um samráð þeirra.
3. maí 2004Skeljungur skilar Sam­keppnis­stofnun andmælum við síðari frumathugun á samráði olíufélaganna.
4. maí 2004Olíufélagið skilar andmælum sínum, degi of seint vegna bilunar í tölvukerfi.
10. maí 2004Olíufélag Íslands skilar andmælum sínum, eftir að hafa fengið frest framlengdan um vikutíma.
28. október 2004Samkeppnisráð sektar olíufélögin um rúma 2,6 milljarða króna fyrir brot gegn samkeppnislögum.
1. nóvember 2004Tölvupóstur fer um eins og eldur í sinu þar sem fólk er hvatt til að kaupa ekki smásöluvarning af brotlegum olíufélögum, heldur einskorða viðskipti sín við bensín.
nóvember 2004Dæmi eru um að við­skipta­­vinir séu dónalegir við bensínafgreiðslufólk vegna uppljóstrana um verðsamráð olíu­­félaganna.
desember 2004LÍÚ fær lögfræðiálit þar sem fram kemur að olíufélögin kunni að vera bótaskyld við útgerðarfélög.
desember 2004Á vettvangi Neytenda­sam­tak­anna er einnig verið að kanna mögulegan flöt á bótakröfu fyrir hönd félagsmanna.
29. janúar 2005Áfrýjunarnefnd sam­keppnis­mála gefur út úrskurð sinn og lækkar sektir félaganna um rúman milljarð, í 1,5 milljarða króna. Ker og Olíu­verslunin fá afslátt fyrir samstarf við samkeppnisyfirvöld. Skeljungur fær engan afslátt af sekt sinni.
september 2005Reykjavíkurborg kannar mögu­legan bótarétt vegna samráðs olíu­­félag­anna í útboðum borgarinnar.
30. júní 2005Þingfest í Héraðsdómi Reyk­ja­­víkur mál Kers á hendur ríkinu til niður­fellingar sekta vegna verðsamráðs Essó við hin olíufélögin.
30. júní 2005Í Héraðsdómi Reykjavíkur er einnig þingfest skaðabótamál Neytenda­sam­tak­anna á hendur Keri vegna samráðs Essó við hin félögin. Málið er höfðað sem prófmál fyrir hönd eins félagsmanns samtakanna.
júlí 2005Olís og Skeljungur leggja inn stefnur á hendur ríkinu til niðurfellingar eða lækkunar sekta samkeppnisyfirvalda.
22. september 2005Á fundi borgarráðs Reykjavíkur er kynnt bótakrafa borgarinnar á hendur olíufélögunum þremur upp á rúmar 150 milljónir króna vegna samráðs í útboði sem fram fór árið 1996. Félögin fá frest fram í miðjan október til að svara.
september 2005Eitt útgerðarfélag hefur ákveðið að höfða mál á hendur olíu­félög­un­um til skaðabóta vegna samráðs þeirra. Önnur eru enn að kanna málið.

október 2005 Viðræður lögmanna olíu­félag­anna og lögmanns Reykjavíkurborgar um skaðabótakröfu borgarinnar hefjast.
17. nóvember 2005Efnahagsbrotadeild ríkis­lögreglustjóra sendir ríkissaksóknara niður­stöðu lögreglurannsóknar á samráði olíu­félaganna.
21. nóvember 2005Ríkislögreglustjóri sendir út tilkynningu um lok rannsóknarinnar og upplýsir að málið sé komið til ríkissaksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×