Innlent

Hóta verkfalli

Sjúkraliðar hóta verkfalli á elli- og hjúkrunarheimilum. Á fundi sjúkraliða sem starfa hjá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu í gær var lýst megnri óánægju með hve lengi hafi dregist að ganga frá kjarasamningum. Þolinmæði sjúkraliða er sögð þrotin. Steininn hafi tekið úr með því sem sjúkraliðar kalla rangtúlkun atvinnurekenda á undirrituðu bráðabirgðasamkomulagi frá 26. september s.l.. Samkomulag sem átti að leiða til sátta en snérist upp í andhverfu sína með framkvæmd þess. Krefjast sjúkraliðar þess að gengið verði frá nýjum kjarasamningi nú þegar, og að sá dráttur sem orðið hafi á gerð nýs kjarasamnings verði bættur starfsmönnum með eingreiðslu. Að öðrum kosti verði hafinn undirbúningur að boðun vinnustöðvunar hjá þeim stofnunum sem aðild eiga að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu en þær eru meðal annars Elliðheimilið Grund, Hrafnista í Reykjavík og Hafnarfirði, Sunnuhlíð í Kópavogi, SÁÁ Vogur, Heilsuhælið í Hveragerði, og Sjálfsbjargarheimilið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×