Innlent

Starfsmannaleigan 2B:

Í matsalnum Margir erlendir verkamenn starfa á Kárahnjúkum. Verkalýðsfélögin hafa í ófá skipti þurft að hafa afskipti af aðbúnaði þeirra og kjörum. Myndin tengist ekki pólsku verkamönnunum sem starfsmannaleigan 2B flutti inn.
Í matsalnum Margir erlendir verkamenn starfa á Kárahnjúkum. Verkalýðsfélögin hafa í ófá skipti þurft að hafa afskipti af aðbúnaði þeirra og kjörum. Myndin tengist ekki pólsku verkamönnunum sem starfsmannaleigan 2B flutti inn.

Í fundargerðum Odds Friðgeirssonar, trúnaðarmanns á Kárahnjúkasvæðinu sem birt er að fullu á rafis.is kemur í ljós að fulltrúi starfsmannaleigunnar 2B hafi ráðlagt verkstjóra Suðurverks að lemja pólska verkamenn, sem 2B fluttu inn til vinnu við Kárahnjúka, ef þeir sýndu mótþróa. Grétar Ólafsson, verkstjóri Suðurverks staðfestir að Eiður Eiríkur Baldvinsson, framkvæmdastjóri 2B hafi sagt honum að lemja mennina og að margir væru vitni að þeim ummælum.

Eiður segir málið byggt á misskilningi. "Ég sagði að tungumálaörðugleikar yrðu framundan og að það þyrfti að sýna þeim góða verkstjórn og góðan aga," segir Eiður sem ber upp á Odd Friðgeirsson að hann hafi síðastliðna mánuði reynt að koma starfsmannaleigunni á kné einungis vegna þess að honum líki ekki starfshættir hennar, en leigan tekur gjald af skjólstæðingum sínum fyrir að fá að vinna á Íslandi.

Eiður heldur því fram að slíkt sé ekki ólöglegt og þessi gjaldtaka sé heimil. Oddur er á öðru máli. "Gjaldtaka sem þessi af launamanni fyrir vinnu er óheimil og þar með ólögleg. Launamaðurinn ræður sig í vinnu gegn umsömdum launum og þau laun ber honum að fá. Hann á ekki að borga fyrir að fá vinnuna," segir Oddur.

Ein af þeim sökum sem bornar eru á 2B er að fyrirtækið hafi haft aðgang að bankareikningum starfsmannanna sem Pólverjarnir telja sig ekki hafa gefið leyfi fyrir. Eiður segir rétt að starfsmannaleigan hafi haft aðgang að bankareikningunum en því hafi verið breytt eftir fyrstu útborgun. Þá segir í fundargerð Odds að mönnunum hafi verið ráðlagt af starfsmannaleigunni að halda sig frá Íslendingum þar sem þeir álitu Pólverja drykkjurúta og þjófa.

Þá hefði þeim einnig verið gert ljóst að allar skemmdir sem þeir hugsanlega ynnu, líka óviljandi, yrðu þeir að borga. Eiður ber þessar sögur til baka og segir að starfsmönnum hafi verið tjáð að þeir væru tryggðir með viðbótartryggingu vegna allra slysa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×