Erlent

Hizbolla vinnur stórsigur

Annar hluti þingkosninganna í Líbanon var haldinn í gær en þá var kosið í suðurhluta landsins. Kosningarnar gengu að mestu vel fyrir sig en þó voru einhver átök á milli drúsa og stjórnarhers í miðhluta landsins þar sem kosið verður næsta sunnudag. Fyrstu tölur bentu til að Hizbollah-samtökin hefðu sigrað í kosningunum og jafnvel búist við að samtökin hljóti öll 23 þingsætin sem þessi hluti landsins hefur yfir að ráða. Hizbollah á miklu fylgi að fagna á meðal fátækra sjía en þeir eru í meirihluta í Suður-Líbanon. Samtökin hafa verið undir mikilli pressu frá alþjóðasamfélaginu um að afvopnast og vinna í staðinn að sínum pólitísku markmiðum á friðsamlegan hátt. Sýrlendingar hafa haft mikil ítök í Líbanon síðan hernámi Ísraela lauk en þeir fluttu herlið sitt fyrst frá landinu nú í apríl. Í kosningunum í Beirút fyrir viku fengu andstæðingar Sýrlendinga yfirburðakosningu. Sjíarnir í suðrinu hafa hins vegar notið verndar og velvildar Sýrlendinga. Tvær andstæðar fylkingar hafa þannig unnið sigra í fyrsta og öðrum hluta líbönsku kosninganna. Næstu tvo sunnudaga verður kosið í norður- og vesturhluta landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×