Erlent

Sakaður um dauða milljóna

Saddam Hussein verður sakaður um að bera ábyrgð á dauða milljóna manna með stríðum sínum og aftökum þegar hann verður leiddur fyrir rétt. Stefnt er að því að það verði innan tveggja mánaða. Það er af nógu að taka þegar að því kemur að dæma Saddam Hussein því ódæðisverk hans eru bærilega skrásett. Það eru stöðugt að finnast fjöldagrafir víðs vegar um landið og er talið að í þeim hvíli minnst 300 þúsund manns. En ef ætti að tína til allar hans ávirðingar er hætt við að réttarhöldin tækju mörg ár. Það hefur því verið ákveðið að halda kæruatriðunum í hófi. Laith Kuba, talsmaður íröksku ríkisstjórnarinnar, segir að hægt væri að leggja fram 500 ákærur á hendur Saddam Hussein fyrir rétti en kærurnar sem lagðar verði fram verði studdar traustu gögnum. Dómarar séu þess fullvissir að Saddam og meðstjórnendur hans verði dæmdir fyrir þau 12 atriði sem þeir verði sóttir til saka fyrir. Fyrst ákæruatriðin verða ekki fleiri en tólf verður sjálfsagt mikill fjöldi manna sem finnst að þeir hafa ekki fengið réttlæti í sínum málum en sem fyrr segir tæki það mörg ár að rétta í öllum ákæruatriðum. Litlar líkur eru á öðru en að Saddam Hussein verði sakfelldur. Hins vegar er alls ekki víst hver örlög hans verða, hvort hann verður tekinn af lífi eða settur í ævilangt fangelsi. Um það eru skiptar skoðanir, líka meðal ráðamanna í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×