Innlent

Óttast Atlantshafsferðina

Ein þeirra sem tóku á móti Kjartani ræðara í gær var Líf dóttir hans en hún fór með litlu tíkina sína, hana Skvísu, um borð í björgunarbátinn Ásgrím S. Björnsson og sigldi á móti föður sínum þegar hann kom róandi að Reykjavíkurhöfn. Spurð hvort hún hefði ekki verið áhyggjufull á meðan á róðrinum stóð sagðist hún vera orðin flestu vön þegar faðir hennar ætti í hlut en hann er mikill ævintýramaður eins og ráða má af þessu uppátæki hans. "Ég vona nú að hann fari ekki alveg strax í þessa ferð yfir Atlantshafið," sagði hún en Kjartan hefur sagt frá því að þessi hringferð sé undirbúningur fyrir slíka ferð. Kjartan játar því að hringferðin hafi í raun verið lífshættuleg. "Ég hef þó ekkert verið að ljá máls á því til að vera ekki að valda frekari áhyggjum," sagði hann eftir komuna í gær. Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu átti Kjartan að vera mættur í vinnu við kvikmyndatökur Clints Eastwood og félaga á Suðurnesjum en hins vegar verður sennilega ekki af þeirri vinnu enda er leit að herskipi í Ísafjarðardjúpi næsta verkefni sem nú á hug hans allan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×