Erlent

Ekkert spurst til íslenskrar konu

Ekkert hefur spurst til íslenskrar konu sem er saknað í Mississippi eftir að fellibylurinn gekk þar yfir. Utanríkisráðuneytið leitar allra leiða til að hafa uppi á henni. Utanríkisráðuneytið vill að svo stöddu gefa upp nafn konunnar sem saknað er. Íslensk stjórnvöld hafa leitað eftir aðstoð hinna bandarísku við að finna konuna en ekki er búist við miklu þaðan eins og glundroðinn er á flóðasvæðunum. Bandarísk stjórnvöld vita ekki einusinni hvað margir hafa farist eða týnst, hvað þá að þau viti hvað þeir heita. Pétur Ásgeirsson hjá utanríkisráðuneytinu sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að ræðismenn Íslands í Bandaríkjunum aðstoðuðu við leitina með því að hringja til Íslendinga á flóðasvæðinu og leita frétta, þeir hefðu einnig samband við lögreglu og björgunarmiðstöðvar sem nú eru loks að komast á laggirnar. Einnig hafi verið haft samband við utanríkisráðuneyti hinna Norðurlandanna og vinni þessi lönd saman að því að hafa upp á þegnum sínum. Sá möguleiki er auðvitað fyrir hendi að konan hafi flutt til einhverra vina sinna áður en fellibylurinn gekk yfir og hafi ekki hugmynd um að verið sé að leita hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×