Erlent

Pólverjar kjósa á Íslandi

Pólverjar búsettir á Íslandi höfðu kost á að kjósa í utankjörstaðakosningu í Alþjóðahúsinu vegna pólsku þingkosninganna. Af þeim rúmlega 2000 Pólverjum sem búsettir eru hérlendis höfðu 53 skráð sig á kjörskrá. Kjörsóknin var góð eða rúmlega 81prósent. "Það voru ekki margir á kjörskrá núna," segir Katrín Guðmundsson, fulltrúi kjörstjórnar. Hún telur ástæðu þess að ekki fleiri skráðu sig meðal annars vera að ekki hafi verið nægilega kynnt fyrir fólki hvernig ætti að bera sig að við skráninguna. "Við ætlum að laga þetta fyrir pólsku forsetakosningarnar sem verða í byrjun október." Kosningarnar í Alþjóðahúsinu gengu vel fyrir sig og margir Pólverjar litu inn þrátt fyrir að vera ekki á kjörskrá. Katrín segir mikilvægt fyrir Pólverja að kjósa þó þeir séu ekki búsettir í Póllandi. " Það er borgaraleg skylda okkar," segir Katrín, "við eigum rétt á að sýna samstöðu við Pólverja í Póllandi og taka þátt í að móta daglega lífið þar." Katrín segir marga Pólverja snúa aftur til Póllands eftir nokkur ár og því mikilvægt fyrir þá að geta haft áhrif heima fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×