Innlent

Bæjarstjórn harmar andstöðu

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er sammála niðurstöðu nýrrar skýrslu um að skynsamlegt sé að sameina sveitarfélögin Garð, Sandgerði og Reykjanesbæ í eina heild. Bókun þessa efnis var samþykkt einróma á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag. Skýrslan var samin á vegum nefndar sem skipuð er fulltrúum allra sveitarfélaganna. Í bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er harmað að meirihlutar bæjarstjórna Garðs og Sandgerðis hafi ítrekað lýst andstöðu við sameiningu áður en niðurstöður skýrslunnar voru kynntar. "Það er að okkar mati hluti af lýðræðislegu ferli að íbúar fái að kynna sér rök með og á móti áður en þeir taka afstöðu," segir í bókuninni. Bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðis hafa opinberlega lagst gegn sameiningu sveitarfélaganna þriggja en kosið verður um málið þann 8. október næstkomandi. Þær telja að uppbygging í bæjarfélögunum verði greiðari með þeim hætti og íbúar eigi þess frekar kost að taka þátt í lýðræðislegum ákvörðunum um sitt nánasta umhverfi. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er annarrar skoðunar og telur tilgangslaust að eyða kröftum í að berjast innbyrðis um íbúa og atvinnutækifæri á Suðurnesjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×