Innlent

Tággrönn áður en hún fékk sér bíl

Helga Braga flutti stutta framsögu á fundi sem efnt var til í hádeginu í gær vegna samgönguviku í Reykjavík. Þar lýsti hún því að móðir hennar hefði aldrei átt bíl og væri tággrönn fyrir vikið. "Og þannig var ég áður en ég fékk mér bíl," sagði Helga Braga og uppskar hlátrasköll. Vinnu sinnar vegna þurfti hún að kaupa sér bifreið en áður ferðaðist hún um á strætó og tveimur jafnfljótum og sameinaði þannig að komast á milli staða og halda sér í formi. Nú fer hún allra sinna ferða á bílnum; "nema um daginn þegar ég tók mig til og fór í göngutúr - út í sjoppu," sagði hún og aftur var hlegið. Á fundinum var meðal annars fjallað um mismunandi samgöngumáta og áhrifin á heilsuna. Björn Leifsson líkamsræktarfrömuður sagði Íslendinga duglega að hreyfa sig og benti á að um tíu þúsund manns stundi líkamsrækt í Laugum, þar sem fundurinn var haldinn. "En hér vilja allir leggja við dyrnar," sagði Björn og fannst það skjöta skökku við að fólk sem kæmi í húsið til að hreyfa sig setti fyrir sig að ganga svolítinn spöl. Ástæða þess væri hins vegar einföld - veðrið. "Fólk fer inn í sólskini en kemur út í haglél og hárgreiðslan fýkur út í veður og vind." Björn hefur löngum hvatt til hreyfingar og hollra lífshátta og horfir lengra en í eigin rann í þeim efnum. Á fundinum ítrekaði hann fyrri hugmynd sína þess efnis að Orkuveitan og Reykjavíkurborg hiti upp göngu- og hjólreiðastíga borgarinnar svo um þá megi fara allan ársins hring. Veit hann sem er að eitthvað kostar slík framkvæmd og stakk hann upp á að Orkuveitan hætti tilraunum sínum við risarækjueldi og verði peningum fremur til hitunar stíganna. Sverrir Björnsson, auglýsingagerðarmaður í Hvíta húsinu, sagði samfélagið hannað fyrir bíla og þar réði hinn hraði lífsstíll landsmanna mestu. Hann rifjaði upp þjóðsöguna um að eigendur stórra jeppa væru ekki síst að ýta undir karlmennskuímynd sína og að samhengi væri á milli stærðar jeppans og limsmæðar viðkomandi. Sjálfur viðurkenndi hann jeppaeign en skýrði hana með skíðaáhuga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×