Erlent

Íbúar í Houston þurfa að fara

Borgarstjórinn í Houston í Texas, Bill White, tilkynnti í dag að allir íbúar sem byggju á svæðum sem lægju lágt og hætta væri á að flæddi yfir skyldu yfirgefa borgina á morgun vegna komu fellibylsins Rítu. Almannavarnir á svæðinu segja að allt að ein milljón manna í borginni verði að fara en búist er við Ríta taki land við Galveston, suðaustur af Houston, á föstudag eða laugardag. Ríta flokkast nú sem fjórða stigs fellibylur og er þar með orðin öflugri en Katrín þegar hún skall á suðurströnd Bandaríkjanna. Óttast er að Ríta kunni að valda gríðarlegi eyðileggingu í Texas og í Louisiana en búist er við að mikil flóð muni fylgja henni. Hefur öllum þeim sem snúið höfðu aftur til New Orleans verið skipað að fara aftur burt. Um 500 rútur eru sagðar í New Orleans og er þeim ætlað að flytja fólk burt, en ekki hefur tekist að gera fullkomlega við varnargarða við borgina eftir yfirreið Katrínar og því er óttast að þeir gefi eftir. Yfirvöld í Texas og Louisiana sem og alríkisstjórnin búa sig nú undir að hamfarirnar sem fylgja Rítu geti orðið jafnmiklar og þegar fellibylurinn Katrín reið yfir fyrir um þremur vikum, en þau sættu mikilli gagnrýni fyrir seinagang og fyrir að koma ekki fátæku fólki til bjargar. Bill White, borgarstjóri í Houston, hefur varað við því að ekki verði nóg af farartækjum á vegum stjórnvalda til að flytja fólk burt og hvetur vini og nágranna til að hjálpa hver öðrum í þeim málum. Fyrr í dag hafði íbúum í Galveston í Texas verið skipað að yfirgefa heimili sín en talið er að Ríta taki land þar um slóðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×