Erlent

Cheney ósammála Bush

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, er ósammála George W. Bush forseta um að banna eigi hjónabönd samkynhneigðra. "Frelsi þýðir frelsi fyrir alla," sagði Cheney á framboðsfundi í Davenport í Iowa. Bush vill breyta stjórnarskránni þannig að hjónabönd samkynhneigðra verði bönnuð. Cheney, sem segist virða skoðun Bush í málinu, vill að ríkin sjálf ákveði hvort samkynhneigðum verði leyft að giftast. Á fundinum í Davenport sagði Cheney fjölskyldu sína vera vel inni í málum samkynhneigðra því dóttir hans væri lesbísk. Talsmenn réttindabaráttu samkynhneigðra fögnuðu yfirlýsingu Cheney og sögðu hana sína að repúblikanar væru klofnir í málinu. Íhaldssamir repúblikanar gagnrýndu hins vegar yfirlýsinguna og sögðu hana gefa væntanlegum kjósendum í forsetakosningunum misvísandi skilaboð um stefnu flokksins í málinu. Cheney sagði skoðun sína persónulega og ekki hafa áhrif á stefnu Hvíta hússins í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×