Erlent

Mikið uppnám í Rússlandi

Hryðjuverk eru talin hugsanleg ástæða þess, að tvær rússneskar farþegaþotur fórust með nokkurra mínútna millibili í nótt. Um níutíu manns voru í vélunum tveimur og létust allir. Fjölmiðlar í Rússlandi segja ellefta september runninn upp í Rússlandi. Vélarnar tóku á loft frá Domodedovo-flugvelli í Moskvu með fjörutíu mínútna millibili en hurfu báðar af radarskjám á nánast sama augnabliki. Fyrri vélin, af gerðinni Tupolev 134 í eigu flugfélagsins Volga Avie Express, tók fyrst á loft. Flak hennar fannst í morgun um 160 kílómetra suður af Moskvu. Sjónarvottar segjast hafa séð sprengingu um borð í vélinni áður en hún hrapaði. Brak vélarinnar fannst nánast í einum haug svo að telja má að hún hafi ekki sprungið á flugi. 42 fórust með vélinnni. Seinni vélin, af gerðinni Tupolev 154 í eigu flugfélagsins Sibir, hrapaði á sama tíma um 150 kílómetra frá bænum Rostov-á-Don. Rússneska fréttastofan Interfax greindi frá því að neyðarkall hefði borist frá vélinni, en misvísandi upplýsingar berast um hvort að tilgreint var að hryðjuverkamenn væru um borð, eða hvort að það var fremur almenns eðlis. Flugumferðarstjóri í Moskvu lét lögreglu vita að áhöfn vélarinnar hefði orðið fyrir árás skömmu áður en vélin hvarf af ratsjárskjám. Embættismenn á vettvangi segja flak vélarinnar hafa splundrast á flugi, og að brak úr því sé dreift yfir allt að fimmtíu kílómetra svæði. Á milli fjörutíu og sex og fimmtíu og tveir voru um borð, og fórust allir. Atvikin hafa valdið uppnámi í Rússlandi, enda þykir með ólíkindum að vélarbilanir geti valdið tveimur flugslysum með nokkurra augnablika millibili. Báðar vélarnar eru sagðar hafa verið í góðu ástandi, vel við haldið og áhöfnin vön. Öryggiseftirlit á flugvöllum í Rússlandi hefur þegar verið hert og Vladímír Pútín, forseti Rússlands hefur skipað öryggisþjónustunni að rannsaka atvikin til hlítar. Talsmaður öryggisþjónustunnar segir að engar vísbendingar hafi fundist á vettvangi sem bendi til hryðjuverka, en þó sé ekki hægt að útiloka neitt. Á sunnudaginn verða forsetakosningar í Tsjetsjeníu, til að kjósa eftirmann Ahmeds Karyrovs, sem ráðinn var af dögum í maí. Uppreisnarmenn í Tsjetsjeníu hafa hótað því að valda uppnámi í kringum kosningarnar, en talsmaður aðskilnaðarsinnans Aslans Maskhadov neitar aðild að hugsanlegum hryðjuverkum. Rússneskir fjölmiðlar fjalla þó um atburðina eins og um hryðjuverk hafi verið að ræða, og segja þetta samsvara hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin ellefta september 2001.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×