Erlent

Krefjast þess að her fari á brott

Mannræningjar sem halda þremur starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna í gíslingu í Afganistan krefjast þess að allur erlendur her í landinu hverfi á brott og Sameinuðu þjóðirnar hætti starfsemi sinni. Að öðrum kosti verði gíslarnir myrtir. Mannræningjarnir í Afganistan virðast hafa lært sitt hvað af mannránum öfgahópa í Írak og sendu í dag frá sér myndband af gíslunum; tveimur konum, frá Kosovo og Norður Írlandi og einum karlmanni frá Filippseyjum. Fólkinu var rænt á fimmtudag en þau unnu við undirbúning og eftirlit með fyrstu forsetakosningum sem fram fóru í Afganistan fyrr í mánuðinum. Öfgahópurinn sem heldur gíslunum þremur krefst þess að allir erlendir hermenn hverfi frá Afganistan og að auki verði öllum Al Kaeida og Talibana föngum Bandaríkjamanna sleppt fyrir hádegi á miðvikudag. Verði það ekki gert, verði gíslarnir teknir af lífi. Um tvöþúsund útlendingar sem starfa ýmist við hjálparstörf eða friðargæslu búa í Kabúl. Þessu fólki er afar brugðið vegna atburða síðustu daga en þessi gíslataka hefur, ekki síður en sjálfsmorðsárásin um síðustu helgi, þar sem tveir létust og þrír íslenskir friðargæsluliðar særðust, valdið miklum ótta á meðal fólks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×