Erlent

Flokkadrættir í Verkamannaflokknum

Vangaveltur eru í gangi í Bretlandi um það hver taka mun sæti Andrew Smith, ráðherra atvinnumála og eftirlauna, en hann sagði af sér á mánudaginn eftir mikla gagnrýni vegna ástands eftirlauna í Bretlandi. Afsögn Smith flýtir fyrirhugaðri uppstokkun á ráðherraliði Tony Blairs og hefur vakið miklar umræður um flokkadrætti í Verkamannaflokknum. Í annarri fylkingunni er Tony Blair forsætisráðherra og fylgismenn hans, en hins vegar Gordon Brown fjármálaráðherra og þeir sem hann styðja. Andrew Smith er sagður hafa verið náinn samstarfsmaður Brown og talið er að afsögn hans hafi veikt Brown-væng flokksins. Búist var við uppstokkun á ráðherraliði Blairs í júlí en henni var frestað meðan ákvörðunar Peter Mandelson var beðið, um það hvort hann þæði sæti í Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem hann gerði. Blair hefur nú tilkynnt að uppstokkunin muni fara fram í þessari viku. Patricia Hewett iðnaðarráðherra og Geoff Hoon varnarmálaráðherra hafa verið nefnd sem kandídatar í stöðuna en eftirlaunamál eru afar þýðingarmikið mál fyrir ríkisstjórn Blair og gæti hugsanlega orðið úrslitavaldur í næstu þingkosningum sem fram fara næsta vor. Þá hefur Blair lýst yfir vilja sínum um að Alan Milburn, sem hefur verið einn helsti stuðningsmaður Blair, komi aftur inn í ríkisstjórn. Milburn var ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu þar til fyrir rúmu ári er hann yfirgaf ráðuneytið til þess að geta sinnt fjölskyldu sinni betur að eigin sögn. Síðan þá hefur hann starfað ötullega bak við tjöldin við undirbúning að kosningaherferð Verkamannaflokksins. Það þykir lykilatriði fyrir velgengni Blair í næstu kosningum að hann komi Milburn að nýju í áhrifasæti innan flokksins en hann hefur verið nefndur sem hugsanlegur arftaki Blair. Hins vegar er skýrt frá því í breskum fjölmiðlum að Milburn muni ekki þekkjast boð Blair um þátttöku í ríkisstjórn, nema honum standi til boða að verða framkvæmdastjóri flokksins. Núverandi framkvæmdastjóri er Ian McCartney og hafa varaformaður flokksins, John Prescott, og Gordon Brown, báðir lýst andstöðu sinni við það að McCartney verði fundin önnur staða. Blair lýsti því hins vegar yfir á blaðamannafundi fyrr í vikunni að hvorki Prescott né Brown fái um það ráðið hvaða stöðu Milburn verði boðin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×