Erlent

Aftur í faðm fjölskyldunnar

Tæpum fjórum áratugum eftir að bandaríski hermaðurinn Charles Jenkins hvarf frá herdeild sinni í Suður-Kóreu og birtist í Norður-Kóreu er hann í fyrsta skipti kominn í land þar sem Bandaríkjamenn eiga möguleika á að fá hann framseldan. Óvíst er hver verða örlög Jenkins sem í gær kom til Japans. Jenkins hvarf frá bandarískri herdeild sinni árið 1965 og seinna sást hann sem leikari í norður-kóreskum myndum þar sem hann var í hlutverki vonda Ameríkumannsins. Bandaríkjamenn telja að Jenkins hafi strokið en fjölskylda hans segir Norður-Kóreumenn hafa rænt honum. Í Kóreu kvæntist hann japanskri konu og á með henni tvær dætur. Eiginkonan komst frá Kóreu fyrir tveimur árum en Jenkins varð eftir með dætur þeirra þar sem hann óttaðist að bandarísk yfirvöld myndu ákæra hann fyrir strok úr hernum. Stuðningur japönsku ríkisstjórnarinnar, og þá sérstaklega forsætisráðherrans, Junichiro Koizumi, varð til að Jenkins skipti um skoðun og ákvað að snúa til Japans ásamt dætrunum .Jenkins, sem er 64 ára, var við komuna til Japans lagður inn á sjúkrahús, enda er hann þrotinn að heilsu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×