Innlent

Vistvæn jól

Lambakjöt í stað svínakjöts og vistvænar jólagjafir sem pakkað er inn í endurnýtanlegan maskínupappír eru meðal hugmynda Landverndar að vistvænum jólum. Hægt er að fylgja þessum hollráðum án þess að draga úr jólagleðinni. Fráleitt er að setja samasemmerki milli vistverndar og leiðinda, að mati Landverndar, sem ætlar sér ekki að eyðileggja jólin með umvöndunum. Í vistvænum jólum felst til dæmis að hafa fremur villibráð og lambakjöt á borðum en svínakjöt og annað kjöt úr verksmiðjubúskap - og kaupa mat sem er framleiddur í heimabyggð, og helst lífrænan. Svo eru það jólagjafirnar og allt sem þeim fylgir. Skrjáfandi, glansandi jólapappír getur verið ljómandi fallegur en hann er ekki hægt að endurvinna. En það er hægt að nýta auglýsingapóst sem kemur inn um bréfalúguna á heimilum að sögn Bryndísar Þórisdóttur hjá verkefninu „Vistvernd í verki“. Hún bendir þeim sem finnst hún ganga hér heldur langt að þeir geti notað maskínupappír, sem er endurvinnanlegur. En Landvernd lumar einnig á hugmyndum sem gerir stóra jólapakka óþarfa og það er að gefa óefnislegar gjafir. Á heimasíðu Landverndar er hægt að fjárfesta í gjafakortum sem gefandinn fyllir út sjálfur. Þar er að finna hugmyndir að gjöfum eins og nuddi, gluggaþvotti og uppvaski auk ýmissa visvænna hugmynda, eins og að nota örtrefjaklúta við jólahreingerninguna og draga úr notkun hreinsiefna. Þá er mælt með því að fólk kaupi íslenskt jólatré. Það hefur ferðast stystu leiðina inn á stofugólf og ber ekki með sér óþekkta plöntusjúkdóma eða lýs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×