Innlent

Leikskólar stytta sumarlokanir

Leikskólar Reykjavíkur verða lokaðir í hálfan mánuð í sumar. Það er helmingi styttri tími en á síðasta ári. Bergur Felixson, framkvæmdastjóri Leikskólanna í Reykjavík, segir flesta foreldra sætta sig við fríið og aðeins hafi komið upp einstaka mál á þeim áttatíu leikskólum sem borgin reki þar sem lokanir skapi erfiðleika. "Það verður kannað hvernig þetta gefst í haust," segir Bergur. Allir leikskólar nágrannasveitarfélaganna, nema leikskólar Garðabæjar, loka um fjögurra vikna skeið. Þeim er ekki lokað á sama tíma, nema á Seltjarnarnesi þar sem lokanir skarast um hálfan mánuð. Því geta börnin flust milli skóla henti tíminn ekki foreldrum. "Nánast enginn, einn eða tveir, hafa óskað eftir því hér," segir Magnús Baldursson, fræðslustjóri Hafnarfjarðar. Gunnar Einarsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarmála í Garðabæ, segir lítinn aukakostnað skapast vegna sumaropnanna. "Við reynum að skipuleggja það þannig að við þurfum ekki að bæta við fólki. Á sumrin fáum við aðstoð frá vinnuskólakrökkum sem bera þó ekki ábyrgðina. Við heyrum það á foreldrunum að það sé ánægja með þetta. Á meðan svo er þá sjáum við ekki tilganginn í að breyta."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×