Sport

Enski „bekkurinn“ í Madrid

Einar Logi Vignisson skrifar um boltann í Suður-Evrópu.  „Hver er þessi Woodgate?“ spurði hið annars alvitra íþróttablað Marca er fréttist af kaupum Real Madrid á varnarmanninum enska nýverið. Sama gilti um AS sem er hálfgert málgagn Real Madrid, þar hefur ríkt vandræðaleg þögn. Sumarið hafði enda farið í það hjá þessum tveimur ágætu blöðum að velta fyrir sér hvaða miðjumann Perez forseti myndi fá til liðsins og fór mestur tíminn í eltingaleikinn endalausa við Patrick Viera. Kaupin á Michael Owen komu eins og þruma úr heiðskíru lofti en þóttu skiljanleg í ljósi hins hagstæða verðs sem greitt var fyrir hann sem og óumdeilds stjörnuljóma en Owen uppfyllir markaðslega helstu skilyrði Perezar forseta til að teljast ofurbolti, „galactico“. En þetta með Woodgate var öllum óskiljanlegt, kaupverðið býsna hátt, drengurinn verið í endalausum meiðslum og með laskaða ímynd eftir erfið málaferli. Liðið einnig nýverið búið að kaupa sterkan varnarmann, Walter Samuel, og því sáu menn ekki þörfina fyrir annan í viðbót á meðan gapið á miðjunni væri ekki enn fyllt. Einkaflipp Perezar Jose Antonio Camacho þjálfari ítrekaði þó að hann hefði verið hafður með í ráðum varðandi kaupin á Woodgate en öllum er ljóst að kaupin á Owen voru einkaflipp Perezar. Þykir þetta alltsaman frekar broslegt í ljósi þess að Camacho setti það sem skilyrði fyrir ráðningu sinni að hann fengi öllu ráðið um leikmannakaup en fyrri stjórnartíð hans hjá Madrid lauk eftir einungis 22 daga þegar fyrrverandi forsetinn Lorenzo Sanz keypti leikmann án þess að bera það undir þjálfarann. En hvað er Perez þá að pæla með þessum kaupum? Eru þrír mállausir Englendingar betri en einn?(í ljósi takmarkaðra taka Beckhams á spænskri tungu eftir ár í Madrid). Eða eiga hinir tveir að vera ek. „stuðningsfjölskylda“ fyrir enska landsliðsfyrirliðann eftir hið ótrúlega fjölmiðlafár í kringum kappann? Líklegt má telja að Englendingarnir þrír muni styðja hver annan en Perez ætlar þó ekki að láta þá vera í sama bekk í spænskutímum. Eini bekkurinn sem þeir munu sækja saman í vetur verður varamannabekkurinn ef marka má úrtölumenn sem telja Owen fjórða kostinn í framlínu liðsins og Woodgate skrefi á eftir Samuel, Pavon, Bravo og Helguera en sá síðastnefndi verður líklega notaður á miðjunni í vetur í hið margfræga gat, enda miðjumaður að upplagi þótt hann hafi leikið aftar á vellinum í síðari tíð. Fljótir að fagna Efasemdaraddirnar munu þó eflaust verða fljótar að fagna ef frammistaða hinna „tres Ingleses“ verður góð á vellinum og þannig fékk Michael Owen jákvæðar umsagnir eftir fyrsta leik sinn um helgina þar sem hann lagði upp sigurmarkið fyrir Ronaldo. Owen var frískur sem og Beckham sem segir að Camacho hafi lagt fyrir hann að breyta leikstíl sínum, minnka hlaupin og hugsa meira um sóknarleikinn. Beckham er staðráðinn að vinna titil í vetur með Madrid og er ekki í vafa um að spænska deildin sé sú sterkasta í Evrópu. „Munurinn er spænsku deildinni og þeirri ensku er að öll liðin hér hafa tvo eða þrjá stórkostlega leikmenn innanborðs. Það er því einnig gríðarlega erfitt að leika gegn liðunum í neðri hlutanum.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×