Erlent

Blair í samstuði við Berlusconi

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, gengur nú haltur eftir að hafa leikið sér í fótbolta við hús sitt á Sardiníu. Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að ástæðan fyrir meiðslum Berlusconi sé Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Þegar Blair hafi verið í heimsókn hjá Berlusconi fyrr í mánuðinum hafi þeir spilað fótboltaleik þar sem fimm voru í liði. Þegar leikurinn stóð sem hæst á Blair að hafa tæklað Berlusconi með þeim afleiðingum að ítalski forsætisráðherrann meiddist á vinstra hné. Verkurinn versnaði með tímanum og endaði það með því að Berlusconi þurfti að fara til læknis. Þegar blaðamenn spurðu Berlusconi út í atvikið vildi hann lítið tjá sig um það heldur sagði bara: "Þið vitið að vinstri hlutinn er alltaf með einhver vandræði." Breskir fjölmiðlar hafa líka gert sér mat úr þessu atviki forsætisráðherranna á Miðjarðarhafseyjunni. Hins vegar hafa svörin frá Downing-stræti 10 verið fremur rýr. "Það sem gerist í einkaferðum forsætisráðherrans er hans einkamál," sagði starfsmaður á skrifstofu ráðherrans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×