Erlent

Allt á suðupunkti vegna nauðgana

Óeirðalögregla indverska hersins notaði táragas til að dreifa hundruðum mótmælenda sem kröfðust þess fjórða daginn í röð að hermönnum yrði refsað fyrir að nauðga tólf ára stúlku og móður hennar. Mótmælendur brugðust við með því að grýta táragassprengjunum aftur í lögregluna, sem og steinum og múrsteinum. Mikillar reiðu hefur gætt í Srinagar í indverska hluta Kasmír eftir að mæðgurnar greindu frá því að þeim hefði verið nauðgað af indverskum hermönnum. Þetta er í þriðja skipti á tveimur vikum sem indverskir hermenn eru sakaðir um nauðgun. "Guð er mikill, refsið hinum seku," kölluðu mótmælendur. Yfirmenn indverska hersins segja að atvikið verði rannsakað og hinum seku, ef einhverjir eru, verði refsað. "Við viljum aðkomu Sameinuðu þjóðanna við að binda enda á átökin í indverska hluta Kasmír, sérstaklega vegna þess að Indverjar nota nauðganir sem vopn til að draga úr baráttuvilja hreyfingar okkar," sagði Mohameed Ashraf, aðstoðarmaður Yasin Malik, eins helsta leiðtoga aðskilnaðarsinna sem var handtekinn af indverskum lögreglumönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×