Sport

Eiður íþróttamaður ársins

"Ég lít svo á að þetta sé stærsti titill sem íþróttamaður á Íslandi getur fengið og það er virkilega gaman að hljóta hann," sagði Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður í Chelsea og fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við Fréttablaðið í kvöld. Eiður bar sigur úr býtum í kjöri Fréttablaðsins og Vísis um íþróttamann ársins 2004. Rúmlega 3.500 manns tóku þátt í kosningu um íþróttamann ársins á íþróttavef Vísis sem stóð yfir í 2 vikur, frá 8. til 22. desember. Eiður Smári hlaut 44% atkvæða og hafði betur eftir harða baráttu við sundkonuna Kristínu Rós Hákonardóttur sem hlaut 36% atkvæða. Eins og tölurnar gefa til kynna höfðu þau mikla yfirburði í kjörinu. "Þetta er vissulega mikill heiður. Ég reyni að vera góður sendiherra fyrir Ísland og það er mjög gaman að vita að þjóðin fylgist með manni," sagði Eiður jafnframt. Eiginkona Eiðs Smára, Ragnhildur Sveinsdóttir, og synir þeirra hjóna, Andri Lucas og Sveinn Aron, tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Eiðs Smára í dag en hann fékk innrammaða mynd að gjöf sem sýnir hann skora framhjá Gianluigi Buffon í vináttuleik Íslendinga og Ítala í sumar. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verðlaun eru afhent en þau munu verða veitt á hverju ári hér eftir. Sögðust synirnir vera afar stoltir af pabba sínum en þeir höfðu þó lítinn tíma til að fylgjast með honum í leiknum gegn Portsmouth í kvöld þar sem Sveinn Aron var í eldlínunni með liði HK í jólamóti Sparisjóðs Kópavogs, sem HK og Breiðablik halda í sameiningu ár hvert. Spurður um hvort hann ætli að reyna að feta í fótspor pabba þegar hann yrði eldri var Sveinn Aron ekki að spara stóru orðin: "Ég ætla að verða betri," sagði hann og það án þess að blikna. Óhætt er að segja að Eiður Smári sé vel að titlinum kominn. Hann átti fast sæti í liði Chelsea eftir því sem leið á tímabilið í fyrra og átti stóran þátt í því að koma liðinu alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt því að hjálpa liðinu til að ná 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Í ár hefur Eiður Smári fest sig í sessi sem framherji númer eitt hjá þessu eina stærsta liði Evrópu, sem situr í augnablikinu í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×