Sport

Toppliðin unnu öll

Lið Chelsea virðist einfaldlega ekki fært um að tapa leik þessa dagana og í gær var það lið Aston Villa sem var fórnarlambið. Chelsea hefur þó oft leikið betur en í gær en með varnarleik og boðið var upp á í gær er andstæðingurinn ekki líklegur til að skora mörk. Enn einu sinni hélt Chelsea hreinu og eftir 19 leiki á tímabilinu hefur liðið aðeins fengið á sig 8 mörk. "Ef lið ætla sér velgengni verða þau að hafa góða vörn og markmann. Það hefur Chelsea. Liðið er magnað, spilar frábært kerfi og ég öfunda Mourinho fyrir að fá að njóta krafta leikmanna eins og Damien Duff og Arjen Robben," sagði David O´Leary, stjóri Villa eftir leikinn, fullur lotningar í garð Mourinho. Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Chelsea og fékk ágætis dóma fyrir sína frammistöðu. Hann náði reyndar að brenna af upplögðu marktækifæri áður en hann var tekinn út af þegar rúmar 20 mínútur voru eftir. Leikmenn Arsenal sýndu það í leiknum gegn Fulham að þeir eru ekki á þeim buxunum að gefa eftir í baráttunni við Chelsea og var 2-0 sigur liðsins gegn Fulham afar sannfærandi. Thierry Henry og Robert Pires voru frábærir í leiknum og skoruðu þeir mörk Arsenal, bæði á afar snyrtilegan hátt. Markið var það 128. sem Henry skorar fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og jafnaði hann þar með gamalt met Ians Wright hjá félaginu. Er Henry nú langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 16 mörk en næstur kemur Pires með tíu talsins. "Það sem er ótrúlegast við markaskor Henry hjá okkur er hversu stöðugur hann er. Nefnið mér einn annan framherja sem hefur aldrei látið meira en einn eða tvo mánuði líða á milli marka," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, eftir leikinn. Everton og Manchester United eru enn með í baráttunni eftir góða sigra í gær. Lærisveinar Alex Ferguson áttu í engum vandræðum með Bolton á heimavelli sínum á meðan Marcus Bent tryggði Everton dýrmæt þrjú stig með sigurmarki tæpum hálftíma fyrir leikslok gegn Manchester City.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×